Jafntefli niðurstaðan eftir spennuþrungnar lokamínútur

Hugi
Hugi átti stórleik í marki Ægis

Ægir gerði 2-2 jafntefli við topplið Aftureldingar í kvöld í fjörugum leik.

Það voru gestirnir úr Mosfellsbæ sem stjórnuðu ferðinni heilt yfir í fyrri hálfleik.

Á tímabili í fyrri hálfleik var algjör stórskotahríð að marki Ægis, en Hugi Jóhannesson var vandanum vaxinn í rammanum.

Hann kom þá ekki vörnum við þegar gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins um miðbik fyrri hálfleiks með frábæru skoti efst í nærhornið.

Áfram hélt Afturelding að þjarma að Ægismönnum, svo það var algjörlega gegn gangi leiksins að Haukur Már Ólafsson náði að jafna metin fyrir Ægir með góðu marki á 36.mínútu.

Liðin gengu jöfn inn í búningsherbergin og heimamenn gátu prísað sig sælan að ná að halda jöfnu.

Það var allt annað upp á teningnum í síðari hálfleik og leikmenn Ægis voru staðráðnir í að næla í alla þrjá punktana.

Á 65.mínútu fékk Ægir aukaspyrnu rétt fyrir utan teig sem Darko tók snögglega og renndi boltanum á vinn sinn Aco Pandurevic sem lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörð gestanna og Ægir skyndilega komið með forystu.

Gleðin var þó skammvinn hjá heimamönnum þar sem aðeins tveimur mínútum síðar geystust gestirnir upp hægri kantinn og náðu sendingu fyrir þar sem herra fotbolti.net, Magnús Már, var á réttum stað og náði að setja boltann í nærhornið og jafna metin.

Lokamínútur leiksins voru hrikalega spennandi og fengu Ægis menn tvo sénsa á að skora í blálokin, en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan jafntefli 2-2.

Deildin er nú hálfnuð og Ægis menn sitja í 9.sæti með 12 stig.

Næsti leikur er þann 20.júlí gegn botnliði Hattar frá Egilsstöðum.