Gríðarlega mikilvægur nágrannaslagur í Hveragerði

saeli01Það verður svakalegur nágrannaslagur háður í Hveragerði á morgun, fimmtudag.

Ægir heimsækir þá Hamar í gríðarlega mikilvægum fallbaráttuslag í 2.deildinni.

Þegar 14 umferðir hafa verið leiknar eru Ægir með 14 stig í 10.sæti og Hamar með 10 stig í 11.sæti sem er jafnframt fallsæti.

Leikurinn fer fram á Grýluvelli í Hveragerði, klukkan 19:15 á morgun, fimmtudaginn 8.ágúst.

Gaman væri að sjá Þorlákshafnarbúa flykkjast í Hveragerði og styðja við bakið á okkar mönnum í þessum gríðarlega mikilvæga nágrannaslag.

Við fengum fyrrum fyrirliða Ægis til margra ára, Ársæl Jónsson, eða „Herra Ægir“, til að segja okkur örlítið um mikilvægi þessa nágrannaleikja og hvað gerir þá öðruvísi en aðra leiki.

Gefum Ársæli Jónssyni orðið:

,,Að spila nágrannaleiki er öðruvísi, því hér mætast sveitungar, vinir, óvinir og drykkjufélagar. Fyrir nokkrum árum lögðu menn sig alltaf aðeins meira í þessa leiki og undantekningalaust sáust stórhættulegar tæklingar og slagsmál út um allan völl í þessum leikjum.

Í dag er þetta orðið öðruvísi á þann hátt að lítið er af heimamönnum í Ægis liðinu, og einnig nágrannaliðinu Hamar, og því minna um þennan hrepparíg líkt og var áður fyrr. Engu að síður gefa menn sig að sjálfsögðu alla fram í þessa leiki, það er engin spurning.

Sjálfur spilaði ég fjöldann allan af leikjum við nágranna liðin og þetta eru skemmtilegustu leikirnir, þar sem stoltið var í húfi og því fylgdi spenna og stress oft á tíðum þessum leikjum.

Margir leikmenn hafa spilað með báðum þessum félögum, Ægir og Hamar, en þeir eftirminnilegustu sem ég spilaði með eru líklega glaumgosarnir og vinirnir Hlynur Kárason og Stefán Helgi Einarsson, óútreiknanlegir á vellinum sem og í búningsklefanum.

Leikurinn á morgun skiptir Ægir gríðarlega miklu máli fyrir framhaldið og mín spá er sú að Ægir vinni 2-1 í hörkuleik og styrkir stöðu sína í deildinni.

Að lokum vil ég hvetja fólk til að fjölmenna í Hveragerði og styðja við bakið á okkar mönnum“.

 

Hamar-Ægir klukkan 19:15 á Grýluvelli í Hveragerði, fimmtudaginn 8.ágúst.