Ragnar með landsliðinu í Lúx: Kúrar með Sigga Þorsteins

raggi_nat-1Hinn stóri og stæðilegi miðherji, Ragnar Nathanaelsson, mun í kvöld og á laugardaginn leika með A-landsliði karla í körfubolta. Leikirnir fara fram í Lúxemborg þar sem liðið er í æfingaferð um helgina fyrir undankeppni Evrópukeppninnar.

„Við komum í Lúx í gær og erum búnir að koma okkur vel fyrir. Tókum skotæfingu í morgun og spilum fyrsta leikinn klukkan 8 í kvöld,“ segir Ragnar ferskur í samtali við Hafnarfréttir.

Aðspurður segir Ragnar landsliðhópinn vel stemmdan í Lúxemborg. „Við ætlum okkur að nota þessa æfingaleiki vel fyrir aðal leikina í ágúst,“ segir Ragnar en undankeppni EuroBasket 2015 hefst í ágúst.

Ragnar átti frábært tímabil með Þór og vakti mikla athygli hérlendis sem og erlendis. Efir tímabilið fékk hann símtal frá Svíþjóð þar sem honum var boðið að spila með Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni og mun því hefja atvinnumannaferil sinn í Svíþjóð á komandi tímabili.

Ragnar deilir hótelherbergi með Sigga Þorsteins, miðherjanum öfluga úr Grindavík. „Ég er með meistara Sigga „big county“ Þorsteins í fjögurra metra kúri á nóttunni svo ég er í góðum höndum,“ segir Ragnar Nathanaelsson að lokum.