Styrmir Dan: „Stefndi á að bæta Íslandsmetið“

styrmir_dan01Styrmir Dan Steinunnarsson bætti eigið Íslandsmet í hástökki um 2 sentímetra þegar hann stökk 1,96 metra á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki um helgina.

„Tilfinningin var góð og þetta var bara rosalega gaman,“ segir Styrmir Dan þegar Hafnarfréttir slógu á þráðinn eftir mótið.

Styrmir stóð uppi sem sigurvegari í flokki 15 ára pilta en stökk hans er þriðja hæsta stökk Íslendings utanhúss á þessu ári.

„Já ég stefndi á að bæta Íslandsmetið og ég var mikið spenntur fyrir mótinu,“ segir Styrmir aðspurður um hvort hann hafi búist við því að bæta metið enn einu sinni. „Það safnaðist mikil spenna í líkamanum og þegar ég vaknaði morguninn sem hástökkið var fann ég bara að ég var í miklu stökk stuði og fann að ég þurfti að losa spennuna sem var búin að safnast fyrir mótið.“

Glæsilegur árangur hjá þessum mikla frjálsíþróttamanni sem er hvergi nærri hættur. „Að sjálfsögðu er stefnan alltaf sett hærra og hærra,“ segir Styrmir Dan að lokum.

Hér má sjá myndbrot af stökki Styrmis: