HIMINVÍDD á Bókasafninu í Hveragerði

Hulda LínaÖlfusingurinn Hulda Sigurlína Þórðardóttir verður með sýningu á verkum sínum á Bókasafninu í Hveragerði (í Sunnumörk) 1.-31. október. Mörg verkanna á sýningunni eru innblásin af mikilli himinvídd á Suðurlandi.

„Orðið himinvídd heyrði ég fyrst í heimildarmynd á Rúv og fannst það lýsa því sem ég upplifi í Ölfusinu og víðar á Suðurlandi“ segir listakonan. Verk Huldu eru bæði olíu og vatnslitaverk frá síðustu árum. Nokkur þeirra eiga það sameiginlegt að lýsa landslagi, oft frekar fábrotnu, þar sem himininn spilar stórt hlutverk.

„Stuttu eftir að ég flutti á Suðurlandið, fyrir um tveimur árum, dó maðurinn minn eftir stutta sjúkdómslegu. Gönguferðir í þessu landslagi með mikilli himinvídd hjálpuðu mér hægt og rólega að sjá möguleikana í lífi mínu eftir að hann dó. Sjóndeildarhringurinn er svo magnaður – í honum felast tækifærin“ segir Hulda sem segist alltaf hafa verið hrifin af sjóndeildarhringnum.

kindur2Hulda. sem margir þekkja sem Huldu Línu, er ljósmóðir og hefur málað í 20 ár. Hún hefur stundað nám í Myndlistarskóla Reykjavíkur og Myndlistarskóla Kópavogs og einnig sótt stök námskeið, m.a. hjá Hans Christiansen heitnum. Þetta er þriðja einkasýning hennar en hún hefur einnig tekið þátt í nokkrum samsýningum.

Sýningin verður sett upp þann 1. október en Hulda ætlar að hafa „sýningaropnun“ laugardaginn 17.október kl.13. „Þá eru öll börnin mín á landinu til að gleðjast með mér“ segir Hulda. Sýningin, sem er sölusýning, verður opin um leið og safnið, mánudaga kl. 11-18:30, þriðjudaga–föstudaga kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11-14.