Nýju hafnarmannvirkin kalla á brú á Ölfusárósa

hofnin_1976

Í Gamalt og gott að þessu sinni birtum við vígsluræðu Halldórs E. Sigurðssonar, þáverandi samgönguráðherra, sem birtist í Tímanum þann 14. nóvember 1976 um stórbætta hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn.

Greinin og myndirnar eru fengnar af Tímarit.is.

Mannlifið er margbreytilegt og margt óvænt ber að, ýmist ánægjulegt eða miður gott. Gerir þá jafnan gæfumuninn, hvernig við er brugðizt.

Astæðan til þess að við komum saman hér í dag er sú, að nú er formlega tekinn í notkun nýr áfangi í gerð landshafnar í Þorlákshöfn, áfangi, sem er eitt hið stærsta verkefni, sem unnið hefur verið í hafnargerð á Íslandi.

Höfnin er, eins og aðrar hafnir lands, flutningahöfn, og höfn, sem þjónar fiskveiðiflota þjóðarinnar. Þetta framtak á sér þó nokkuð aðra forsögu en gerist almennt um hafnarframkvæmdir hér á landi.

Öllum, sem til þekkja, hefur lengi verið ljós brýn nauðsyn hafnargerðar í Þorlákshöfn til styrktar vaxandi sókn í gjöful fiskimið undan suðurströndinni, auk þjónustu við víðlendar og frjósamar uppsveitir héraðsins.

Þegar, fyrir liðlega 40 árum, hófust lendingarbætur í smáum stíl í Þorlákshöfn, sem þó ekki megnuðu að koma í veg fyrir áframhaldandi hnignun staðarins. Fyrir rúmlega 25 árum var hafizt handa að nýju og höfnin stækkuð í áföngum, fyrst sem sameign sýslnanna og sveitarfélaganna á Suðurlandi, og síðan árið 1967 sem landshöfn.

Árið 1972, eða jafnvel fyrr, var höfnin þó orðin það þröng og ótrygg, að til vandræða horfði. Viðlegurými var aðeins 200 metrar og dýpi 2-4 m. Ljóst var, að ekki yrði til langframa unnt að skjóta því á frest að gera verulegt átak í stækkun hafnarinnar, ef unnt ætti að vera að nýta landfræðilega kosti hennar.

Þegar mönnum varð ljóst hvaða afleiðingar eldgosið í Vestmannaeyjum gæti haft í för með sér, eyðileggingu hafnarmannvirkja þar, brottflutning fólks og töpuð fiskvinnslufyrirtæki, beindu menn eðlilega sjónum sínum að Þorlákshöfn.

Niðurstaðan varð sú, að á miðju ári 1973 ákvað þáverandi ríkisstjórn að gera stórátak í stækkun Þorlákshafnar til lausnar þessum tvíþætta vanda, er við blasti, enda lá þá fyrir, að fáanlegt myndi hagstætt lán til verksins frá Alþjóðabankanum. Í afstöðu bankans til þessara lánveitinga, kom fram vinsemd í garð Íslendinga, eins og fleiri erlendra þjóða, vegna þess áfalls, sem náttúruhamfarirnar í Heimaey ollu þjóðinni.

Verkið var hannað af dönskum sérfræðingum í samráði við Íslendinga, og komu þar einnig við sögu þekktir skipstjórar og aflamenn í Þorlákshöfn, einkum hvað varðar líkantilraunir fyrirhugaðra mannvirkja, sem gerðar voru í Kaupmannahöfn.

Verkið var síðan boðið út og framkvæmd falin lægstbjóðanda, Ístaki h.f. Er umsömdu verki nú lokið og árangurinn höfum við séð í dag.

Í upphafi máls míns vék ég að margbreytileika lífsins og öllu máli skipti jafnan, hvernig brugðizt væri við því óvænta, sem að höndum bæri. Í dag höfum við séð hvernig við því mikla áfalli varð brugðizt, þegar náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum sóttu að þjóðinni. Hægt hefði verið að komast hjá því að reisa þetta stórvirki, þar sem ljóst var hvernig þeim málum myndi lykta, þegar verk þetta var hafið. Hins vegar hafði þjóðin til brunns að bera, þrátt fyrir áfallið, þrek og þor til að leysa hafnarmál Þorlákshafnar með þeim myndarskap, sem raun ber vitni. Yfir því gleðjumst við í dag.

Þegar, áður en eldgosið í Vestmannaeyjum hófst, höfðu ferjumál Vestmannaeyinga verið til athugunar á Alþingi, og var nefnd skipuð í mai 1972 samkvæmt þingsályktun 18. apríl s.á. Nefndin lauk störfum 4. des. 1972, og taldi hún, að málum yrði bezt borgið með smíði eða kaupum á bilferju, sem gengi milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Nefndin taldi ekki í sinum verkahring að gera tillögu um hvenær til framkvæmda kæmi.

Er eldgosinu í Heimaey var lokið, veitti Alþingi vorið 1974 nauðsynlegar heimildir til byggingar ferju, svipaðrar gerðar og nefndin lagði til. Ferjan hefur nú fyrir nokkru hafið ferðir, og hefur hún í dag átt sinn hlut í vigslu hinnar nýju hafnar. Ferjulægið hér í Þorlákshöfn hefur verið byggt sem hluti hafnarinnar.

Ég vil við þetta tækifæri óska Vestmannaeyingum til hamingju með þetta glæsilega skip og um leið færa skipstjóra og skipshöfn og skipinu sjálfu þær óskir, að gifta megi fylgja því, og það megi jafnan skila sér heilu í höfn ásamt þeim, sem með því ferðast.

Þegar á hönnunarstigi verksins varð ljóst af líkantilraunum, að búast mætti við auknum ágangi sjávar á þann hluta suðurvarnargarðs, þar sem ekki var í verklýsingu gert ráð fyrir grjótvörn. Var þó horfið frá að ráðast í það verk að sinni vegna kostnaðar, þótt öllum væri ljóst, að úr yrði að bæta fyrr eða síðar.

Hér er því mikið ánægjuefni að geta nú tilkynnt, að ríkisstjórnin hefur fallizt á að afla fjár til að bæta úr þessum ágalla og samningsgerð er þegar hafin við Ístak h.f. um framkvæmd verksins nú á þessu hausti.

Mér er það ljóst, að sá áfangi, sem náðst hefur í dag í hafnarmálum suðurstrandarinnar, kallar á greiðari tengingu við svæðið austan ölfusár, og á ég þar við brú á ána hjá Oseyrarnesi.

Eru allar likur á, að það verði næsta stórverkefni okkar í brúargerð, sem hafizt getur, þegar rannsóknum er lokið, og það annað tiltækt, sem til framkvæmda þessa verks þarf.

Að lokum skulu öllum þeim, er lagt hafa hönd að verki, færðar þakkir fyrir vel unnin störf. A það bæði við yfirstjórn, hönnuði, verktaka, bankamenn, sérfræðinga, og síðast en ekki sízt, þá sem unnu hin daglegu störf. Þeim skal öllum þakkað.

Þorlákshafnarbúum óska ég til hamingju með þessa stórbættu hafnaraðstöðu. Megi hún færa staðnum aukin umsvif, byggðarlaginu, svo og þjóðinni allri, velgengni á ókomnum árum.

Að svo mæltu fel ég stjórn landshafnarinnar í Þorlákshöfn hin nýju hafnarmannvirki til varðveizlu og reksturs.