Þórsarar með mikilvægan sigur í Grindavík

thor_grinda_8lida-3Í kvöld fóru Þórsarar í heimsókn til nágranna okkar í Grindavík. Þessi lið hafa spilað marga leiki gegn hvort öðru og ber þar helst að nefna úrslitarimmuna árið 2012 sem allir muna eftir.

Okkar menn byrjuðu leikinn ekki nógu vel. Virtist bikarúrslitaleikurinn seinustu helgi sitja í okkar mönnum og var Grindavík yfir eftir fyrsta leikhluta 20-15. Þórsarar börðust þó vel í öðrum leikhluta og náðu að jafna leikinn en í seinni hluta leikhlutans setti Grindavík 9 stig í röð og fór með átta stiga forskot inn í þriðja leikhluta 39-31.

Okkar menn spiluðu virkilega vel í þriðja leikhluta og settu 32 stig í leikhlutanum. Algjörlega ótrúlegur leikhluti hjá okkar mönnum og var Þór yfir 58-63 eftir þrjá leikhluta. Fjórði leikhluti einkenndist af mikilli baráttu eins og hinir leikhlutarnir en Þórsarar stóðu sig vel og sigruðu að lokum 81-87.

Vance var stigahæstur Þórsara með 31 stig. Þar á eftir kom Emil Karel með 19 stig og Raggi Nat með 15 stig.