Næsta sumar mun kosta 6.400 krónur að skoða Raufarhólshelli

Mynd: Steve Mcnicholas

Búið er að loka fyrir aðgang að Raufarhólshelli og mun hann ekki opna aftur fyrr en næsta sumar en þá þarf að greiða 6.400 krónur til þess að skoða náttúruperluna í Ölfusi. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Eins og Hafnarfréttir greindu frá þá voru framkvæmdir við bílaplan hellisins samþykktar af bæjarstjórn Ölfuss í nóvember síðastliðnum. Fyrirtækið Raufarhóll undirbýr nú framkvæmdir í og við hellinn og mun fyrirtækið sjá um rekstur svæðisins en á síðasta ári er talið að um 20.000 manns hafi skoðað Raufarhólshelli.

Hallgrímur Kristinsson, talsmaður Raufarhóls, segir í samtali við RÚV að verið sé að vinna í skipulagsmálum og afla framkvæmdaleyfa. Eins og fyrr segir mun fyrirtækið rukka 6.400 krónur fyrir klukkustundar langa skoðunarferð um hellinn. Þá er einnig stefnt á að opna hellinn á kvöldin í tengslum við sérferðir eins og t.d. norðurljósaferðir.

Raufarhólshellir er á náttúruminjaskrá og samkvæmt Umhverfisstofnun er óheimilt að innheimta gjald að svæðum sem eru á náttúruminjaskrá. Aftur á móti er heimilt að innheimta gjald að svæði til að standa straum af eftirliti, lagfæringum og uppbyggingu svæðisins.