Þórsarar jafna einvígið gegn Grindavík

Þórsarar jöfnuðu metin í einvíginu við Grindavík í 8-liða úrslitum Domino’s deildarinnar í kvöld.

Þórsarar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og voru ávallt skrefi á undan gestunum frá Grindavík og leiddu 52-40 í hálfleik.

Grindvíkingar mættu sterkir til baka í seinni hálfleikinn og söxuðu aðeins á forskot Þórsara en náðu muninum þó aldrei nema niður í þrjú stig. Þeir reyndu hvað þeir gátu í fjórða leikhluta en taugar heimamanna voru sterkar og lönduðu Þórsarar að lokum sanngjörnum 90-86 stiga sigri.

Tobin Carberry fór fyrir Þórsurum í kvöld og skoraði 30 stig en það sem skipti miklu máli í þessum sigri voru framlög frá mörgum.  Halldór Garðar og Ragnar Örn skoruðu báðir 14 stig, fyrirliðinn Emil Karel bætti við 12 stigum, Ólafur Helgi og Maciej Baginski skoruðu báðir 9 stig og Grétar Ingi setti 2.

Þriðji leikur liðanna fer fram á miðvikudagskvöld í Grindavík og hefst sá leikur klukkan 19:15.