Ægi spáð fimmta sætinu

Fótbolti.net er um þessar mundir að kynna liðin í 3. deild karla í knattspyrnu til leiks og fengu þeir „alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið.“ Niðurstaða þeirra er að Knattspyrnufélagið Ægir lendi í 5. sæti.

Liðið féll úr 2. deildinni í fyrra eftir fjögur ár þar en Ægi var einmitt spáð fallií fyrra skv. svipaðri spá Fótbolta.net í fyrra. „Þjálfaraskipti urðu eftir tímabilið og leikmannahópurinn er talsvert breyttur síðan í fyrra. Fleiri ungir leikmenn úr Þorlákshöfn eru í liðinu en áður og ljóst er að Ægismenn ætla að byggja meira á heimamönnum í sumar. Ofan á það eru áfram í hópnum sterkir póstar frá því í fyrra en þar á meðal er velski miðjumaðurinn Jonathan Hood sem lék mjög vel síðari hluta sumars í 2. deildinni í fyrra. Stígandi hefur verið í leik Ægis á undirbúningstímabilinu en spurning er hvort leikmannahópurinn sé nægilega öflugur til að blanda sér af alvöru í toppbaráttuna í sumar“ segir í umfjöllun Fótbolta.net.

Björgvin þjálfari Ægis segist ekki er ekki hissa á þessari spá. „Þessi spá kemur mér ekkert sérstaklega á óvart þar sem við höfum ekki verið sannfærandi í þessum undirbúningsmótum nú í vor. Hópurinn hjá okkur hefur verið þunnur oft á tíðum og því þetta ekkert óeðlileg spá. Það er töluverð breyting á liðinu frá því í fyrra og nýr þjálfari þannig að það tekur tíma að stilla saman strengi. Markmið okkar er að safna eins mörgum stigum og við getum og svo þarf bara að telja saman stigin þegar mótinu er lokið og sjá hvar við stöndum. Það eru nokkur mjög sterk lið í deildinni sem hafa verið að spila vel í vetur. Það eru því einhver 4-6 sterk lið í deildinni sem koma til með að berjast um að fara upp og ég held að deildin verði nokkuð jöfn í sumar.“