Fótbolti.net er um þessar mundir að kynna liðin í 2. deild karla í knattspyrnu til leiks og fengu þeir „alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið.“ Niðurstaðan er heldur neikvæð fyrir okkar lið en Ægi er spáð falli eða 11. sæti í sumar.
Töluverð breyting hefur orðið á liðinu frá því í fyrra og ber þar helst að nefna Einar Ottó Antonsson sem tók við liðinu seinasta haust en hann er að stíga sín fyrstu skref sem þjálfari meistaraflokks. „Mér lýst mjög vel í þetta og ég fer vongóður í þetta. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir því sem við erum að fara að gera,“ sagði Einar Ottó í viðtali við Fótbolti.net en spáin kom honum ekki á óvart þar sem liðið var í fallbaráttu í fyrra.
„Okkar stefna er að byrja á því að afsanna spár um að við séum að fara að falla. Það er kannski númer eitt. Svo væri gott markmið að reyna að slá metið yfir besta árangur félagsins í þessari deild. Við ætlum að gera þetta að stöðugra liði en þetta hefur verið því mannabreytingarnar milli ára hafa verið miklar“ sagði Einar Ottó í viðtali við Fótbolti.net.
Nánari umfjöllun um liðið má nálgast á Fótbolti.net.