Ægir tapaði gegn Axel og félögum í Vængjum Júpíters

Þrátt fyrir frábæran sigur um síðustu helgi þurftu Ægismenn að sætta sig við 3-2 tap gegn toppliði Vængja Júpíters í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Ægismenn byrjuðu leikinn af krafti og komust í 1-0 eftir um það bil tíu mínútna leik með marki frá Gunnari Bent. Á lokasekúndu fyrri hálfleiks jöfnuðu heimamenn muninn og staðan 1-1 í hálfleik.

Vængir Júpíters komu sterkir inn í seinni hálfleik og bættu við tveimur mörkum á skömmum tíma og útlitið ekki bjart fyrir Ægismenn. Liðið var þó ekki á því að gefast upp og sótti grimmt á heimamenn á síðustu tíu mínútum leiksins. Jonathan Hood minnkaði muninn og liðið hélt áfram að sækja allt til loka en það dugði ekki til og niðurstaðan 3-2 sigur Vængja Júpíters.

Gaman er að segja frá því að í marki Vængja Júpíters er Þorlákshafnarbúinn Axel Örn Sæmundsson og reyndist hann sínum gömlu félögum mjög erfiður í kvöld en hann átti nokkrar frábærar vörslur í leiknum.

Eftir leikinn sitja Ægismenn í 7. sæti með 5 stig og næsti leikur er heimaleikur gegn Berserkjum næsta föstudag.