Mikilvægur sigur á Fjölni

Marko Bacovic var besti leikmaður Þórsara í leiknum. Mynd: Bára Dröfn / Karfan.is

Þórsarar unnu mjög mikilvægan sigur á Fjölnismönnum í gær þegar liðin mættust í Domino’s deildinni í körfubolta.

Þórsarar voru sterkari í fyrri hálfleik en gáfu óþarflega mikið eftir í þriðja leikhluta og hleyptu Fjölnismönnum aftur inn í leikinn. Fjölnir leiddu með einu stigi fyrir lokafjórðunginn. Þórsarar komu til baka í fjórða leikhlutanum og sigldu í höfn sterkum 90-82 sigri.

Marko Bakovic var atkvæðamestur í liði Þórs með 27 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Jerome Frink skoraði 21 stig og tók 9 fráköst. Sebastian Mignani átti góðan leik og skoraði 18 stig og gaf 6 stoðsendingar. Halldór Garðar og Ragnar Örn skoruðu 10 stig. Emil Karel og Dino Butorac skoruðu 2.

Þórsarar sitja í 8. sæti deildarinnar en næsti leikur liðsins er á fimmtudaginn gegn Grindavík í Grindavík þar sem 8. sætið er í húfi.