Vill sjá nýtt leikhús í Ölfusi

Ölfusingur vikunnar er að þessu sinni Árný Leifsdóttir. Leikfélag Ölfuss frumsýndi leikverkið Kleinur síðastliðinn laugardag í leikstjórn Árnýjar. Þetta er í fyrsta sinn sem Leikfélag Ölfuss nýtir sinn eigin mannauð til þess að leikstýra og því má reikna með að sigurvíman eftir frumsýningu hafi verið sérlega ljúf hjá félögum LÖ. Uppselt var á frumsýninguna en Kleinur verða settar á svið í nokkur skipti í febrúar og fram í mars mánuð, nánar um það hér. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til þess að láta þessa sýningu ekki framhjá sér fara og styðja við það frábæra starf sem Leikfélag Ölfuss stendur fyrir.

Fullt nafn:
Árný Leifsdóttir

Aldur:
45 ára, fædd 16. Júní 1974.

Fjölskylduhagir:
Ég er gift Þór Emilssyni, við eigum þrjú börn, Leif, Emil Hrafn og Sæunni Jóhönnu.

Starf:
Forstöðukona Bæjarbókasafns Ölfuss og áhugaleikstjóri.

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?
Í sumar verða liðin 15 ár síðan við fluttum til Þorlákshafnar en við eyddum einu ári í Bretlandi svo þetta eru tæp 14 ár.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Folaldasteik og kjúklingur í hvaða formi sem er.

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?
Já! Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov, ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef lesið hana.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?
Muriel’s Wedding, Rosemary’s Baby og One flew over the cuckoo’s nest.

Hvað hlustar þú mest á?
Hljóðbækur og podköst.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?
Skötubót og Selvogur, eins gamla ruslahaugagryfjan sem ég hefði viljað að yrði skipulagt útivistarsvæði.

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?
Sef aðallega, ég er yfirleitt býsna hress nema þegar ég er þreytt eða lasin.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Ása amma mín var mín helsta fyrirmynd. Hún kom sjö börnum til manns í pínulitlu húsi og hafði ofsalega sterka réttlætiskennd. Svo var hún bara skrambi fyndin.

Hvaða lag fær þig til að dansa?
Núna er það tónlistin í Kleinum og svo ansi mörg með Franz Ferdinand.

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?
Ég græt iðulega í brúðkaupum og þegar ég les eða hlusta á góðar bækur. Svo var ég næstum farin að skæla uppi á sviði á laugardagskvöld eftir vel heppnaða frumsýningu.

Hvað elskar þú við Ölfus?
Sköpunarkraftinn. Það er ekkert venjulegt hvað er mikið af hæfileikaríku fólki í rúmlega 2000 manna samfélagi og mér finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað unga fólkið er óhrætt við að taka sér pláss.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?
Nýtt leikhús.

Hver er uppáhalds æskuminningin þín?
Allir dagarnir í fjallinu með fjölskyldunni. Þeir voru ansi margir þar sem við vorum tvö systkinin sem æfðum skíði.

Hvert dreymir þig um að fara?
Mig hefur alltaf langað að fara til Machu Picchu en sá draumur er orðinn býsna fjarlægur og bíður sennilega næsta lífs. Búdapest og eiginlega bara öll Austur Evrópa eru líka spennandi áfangastaðir.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?
Fermingarversið mitt finnst mér besta lífsreglan og ég reyni að fylgja henni. Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra. 

Hvað er framundan hjá þér?
Smá slökun eftir frumsýningu á verkinu sem ég var að leikstýra hjá Leikfélagi Ölfuss, svo ætla ég að sjá verkið aftur á meðan á sýningum stendur.

Eitthvað að lokum?
Ég skora á lesendur Hafnarfrétta að fara að sjá Kleinur eftir Þórunni Guðmundsdóttir í flutningi Leikfélags Ölfuss. Það er fyndið, fallegt og mannlegt leikrit. Miðasala er í síma 786 1250.