,,Ölfusið fullkominn staður fyrir félagslyndan einfara!“

Ágústa Ragnarsdóttir hornleikari og formaður Lúðrasveitar Þorlákshafnar með meiru er Ölfusingur vikunnar. Fyrir lesendur sem ekki þekkja til Ágústu er gaman að benda á að hún er hugsuðurinn á bakvið listaverkin sem sjá má á veggjum í Þorlákshöfn, eins og þessi við ,,verslunarmiðstöðina“ í bænum og vonandi munu fleiri listaverk bætast með tímanum því þau eru sannkallað bæjarprýði.

Fullt nafn:
Ágústa Sigríðar- og  Ragnarsdóttir

Aldur:
53 ára. Er þó ekki í neinum tengslum við lífaldur minn.

Fjölskylduhagir:
Ástkær eiginmaður minn Þórarinn F. Gylfason grafískur hönnuður og alt muglid man, afkvæmi okkar hin 16 vetra Sigríður Fjóla grunnskólanemi og lífskúnstner, nýjasta fjölskylduviðbótin hin tvítuga Álfheiður Österby og svo aðalstjarna heimilisins, hinn elskaði og dáði Jón Svavar eða Jónsi köttur.

Starf:
Kennari í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Kenni þar myndlist, nýsköpun og miðlun og fíla það í botn. Hef þó lungann af minn starfsæfi unnið sem grafískur hönnuður og geri enn í hjáverkum. Svo er ég alltaf í myndlistinni.

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?
Flutti hingað með foreldrum mínum 13 ára í nóvember 1980, fjaraði svo út sem íbúi á háskólaárunum, flutti að heiman en samt ekki! Flutti svo aftur með mína fjölskyldu löngu seinna eða í nóvember 2006 og við erum búin að vera hér á fjórtánda ár. Þetta gæti verið svona samtals um 25 ár ef allt er talið. Foreldrar mínir og einkabróðir hafa búið hér allar götur síðan 1980 og Þorlákshöfn varð ofboðslega fljótt hjá okkur öllum okkar heima og ég hef alltaf skilgreint mig sem Þorlákshafnarbúa. Heima er þar sem hjartað er.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Það vita þeir sem mig þekkja að mér finnst matur nú oft mjög ofmetið fyrirbæri þegar fleiri en tveir koma saman. Kótilettur í raspi hressa alltaf og grillaður kjúklingur líka og sossum margt annað, en hafa það einfalt, það er mitt mottó þegar kemur að mat!

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?
Að lesa er eitthvað sem ég get einna síst verið án og alveg sama hvað það mæðir mikið á mér, ég les á hverju einasta kvöldi. Ég á rosa erfitt með allt svona uppáhalds því yfirleitt er það svo margt sem gleður. En eitt er þó hægt að fullyrða: Ég er glæpasagnafrík. Ég öfunda dóttur mína af því að eiga eftir að lesa svo margar skemmtilegar bækur sem eru til hér á heimilinu, bækur af alls kyns toga.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?
T.d. Forrest Gump, Groundhog Day, Green Mile og fleiri og fleiri, allt eftir stemmara. Samt í seinni tíð er ég ekki eins mikið fyrir að horfa á eitthvað aftur og aftur, ég vil frekar eitthvað nýtt – það er svo margt til.

Hvað hlustar þú mest á?
Ég hlusta langmest á útvarp og fara þá þær systur Rás 1 og 2 þar fremstar í flokki, fróðleikur og alls konar músik í bland. Einnig hlusta ég líka mikið á hlaðvarp ýmiskonar. Það hljómar kannski undarlega en mér finnst músik í langan tíma í einu geta orðið mjög þreytandi og hálfgerð síbylja. Í útvarpi fær maður sýnishorn af alls konar músik, gömul og ný, sígild og dægurfluga, kórsöngur og rapp, og það finnst mér hressandi.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?
Þessi er létt! Hafnarbjarg – kalla það fyrir skrifstofu sálfræðingsins.

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?
Það er einkum tvennt: Ég fer út, ég elska að vera úti, ganga, reyna á mig, brasa eitthvað og njóta náttúrunnar og svo inni teikna ég og mála.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Ég hef aldrei átt einhverjar fjarlægar fyrirmyndir en í áranna rás hef ég fattað að það hefur verið mamma mín og svo undanfarin ár hún dóttir mín. Þessar tvær konur af sitthvorri kynslóðinni eru alveg magnaðar að svo mörgu leiti: Duglegar, fylgnar sér, klárar, með skýr markmið og alveg endalaus seigla.

Hvaða lag fær þig til að dansa?
Upp úr þurru er það t.d. Vegir liggja til allra átta og Disco Inferno! Og í raun bara alls konar, elska að dilla mér.

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?
Já já. Það er ýmislegt sem kemur fram á mér tárunum, ég er hrifnæm og það getur verið stórt sem smátt. Það sem poppar upp núna er þegar Þórarinn kom mér algjörlega óvart með óvæntri risa 50 ára afmælisveislu – þá hrundu nú tárin. 

Hvað elskar þú við Ölfus?
Ég elska kraftinn í umhverfinu, bæði hinu náttúrulega og manngerða, að geta verið góðum hóp eða alein að veltast. Ég elska að geta verið með fullt af duglegu fólki að koma einhverju á laggirnar og hverju við getum áorkað þegar við vinnum saman. Ég elska einnig þegar hafið leikur við svart og myndrænt bjargið og vera þarna úti í orkunni ein að spekúlera. Í raun er Ölfusið fullkominn staður fyrir félagslyndan einfara!

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?
Er það ekki alltaf þannig, maður vill alltaf meira. Og þá er bara að vinna í því áfram skipulega, ekki heimta heldur vinna í því.

Hver er uppáhalds æskuminningin þín?
Þær eru sem betur fer margar en ég fæ alltaf gæsahúð af vellíðan þegar ég hugsa um hina 4 ára Ágústu ásamt afa sínum í Götu í hlöðunni þar og hann er að kenna mér Blátt lítið blóm eitt er. Við sungum alltaf mikið saman og í raun má segja að hann og amma mín hafi haft mest tónlistarleg áhrif á mig – þannig fílaði ég harmónikutónlist og íslensk einsöngslög í botn á meðan aðrir voru að hlusta á eitthvað svaka kúl!

Hvert dreymir þig um að fara?
Þessi er líka auðveld! Annars vegar til Ástralíu og hins vegar út í geim.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?
Við ráðum ekki alltaf hverju við lendum í en við getum ákveðið hvernig við tæklum það.
1. Að fyrst og fremst ég beri ábyrgð á minni líðan og muna að ég hef nánast alltaf val og reyna aðeins að hafa stjórn á því sem er í mínu valdi og þó það geti vissulega komið fyrir að við veljum vitlaust en þá var það samt það sem maður valdi á einhverjum tímapunkti.
2. Ytri aðstæður: T.d. er það ákvörðun hjá mér til margra ára að láta risjótt veðurfar ekki pirra mig – veðrið er ekki eitthvað sem ég get breytt en ég get ákveðið hvernig ég tækla það. Það á við um svo margt annað.

Hvað er framundan hjá þér?
Vonandi fullt af fallegu og spennandi lífi með þeim sem ég elska, áframhaldandi skemmtileg vinna, útivist, teikning, lestur … og innri ró!

Eitthvað að lokum?
Bara að muna að vera almennileg hvert við annað, það á alltaf að vera hægt sama hvernig árar. Og flest höfum við svo margt til að vera þakklát fyrir.