Ölfus sækir fram á forsendum umhverfisvænnar matvælaframleiðslu

Það er engin uppgjafartónn í forsvarsmönnum Sveitarfélagsins Ölfuss á tímum kórónuveirunnar því nú á að setja allt á fullt og setja á laggirnar þekkingarsetur um matvælastarfsemi.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2 í dag ræddi Elliði Vignisson bæjarstjóri þau stóru tækifæri sem Ölfus stendur frammi fyrir í tengslum við framleiðslu umhverfisvænna matvæla.  Í máli hans kom m.a. fram að Sveitarfélagið Ölfus skoði nú af fullri alvöru að stofna þekkingarsetur um matvælastarfsemi, sem byggir á sérhæfingu svæðisins í matvælavinnslu.

Í viðtali við Hafnarfréttir segir Elliði að sveitarfélagið undir forystu bæjarstjórnar hafi nú í hátt á annað ár verið að undirbúa ákveðna sérhæfingu þessa svæðis á sviði matvælaframleiðslu.  „Við höfum átt fundi með fjöldanum öllum af bæði innlendum og erlendum fyrirtækjum til að kanna forsendur stórtækrar uppbyggingar á þessu sviði.  Nærtækast kann að vera það sem snýr að afar umfangsmiklu laxeldi, stórtæk grísarækt og að sjálfsögðu áframhaldandi vöxtur þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem hér eru.  Þá séu hugmyndir um ylrækt afar spennandi og gætu sem best farið hratt og örugglega af stað.  Þá höfum við einnig unnið náið með fulltrúum ríkisstjórnar og ráðherrum hennar og þannig náð að tengjast vinnu um matvælastefnu ríkisstjórnarinnar sem við lítum til með mikilli eftirvæntingu“.

Elliði ítrekar þó að kálið sé ekki sopið þó í ausuna sé komið.  „Undirbúningur sem þessi er ekki eins og að panta sér IKEA mublu og skrúfa hana svo saman.  Við eigum langt í land með undirbúning en þurfum að skrefa okkur áfram.  Ölfus er nú í storminum miðjum hvað varðar undirbúning að þessum framsæknu hugmyndum og sannarlega eru í undirbúningi risavaxin verkefni á þessu sviði. Liður í því er til dæmis áframhaldandi uppbygging smáþörungaræktar, bygging risa svínabús, stækkun seiðaeldis og fulleldi á laxi. Þetta eru náttúrulega ævintýralega stór verkefni og þau þurfa tíma og alúð okkar sem að komum.“   Elliði segir að ávinningurinn geti á sama hátt orðið mikill.  „Ef við lítum til að mynda til fulleldis á laxi hér meðfram ströndinni þá gætum við verið að horfa upp á allt að 40 þúsund tonn af laxi til slátrunar. Til viðmiðunar þá skiluðu allar sjókvíar á landinu 25 þúsund tonnum í fyrra og útflutningsverðmæti voru 19 milljarðar. Þetta er því með sanni segja á við stóriðju“.

Þekkt er að mannkyninu fjölgar hratt og Elliði tekur undir að þessi sóknaráætlun snúist fyrst og fremst um það og áherslan á heilbrigð matvæli þar með. „Ef fjölgun mannkynsins verður eins og stefnir í þá þurfum við að framleiða jafnmikið af mat á næstu 40 árum og við höfum gert síðustu 8 þúsund árin.  Á sama tíma vitum við að í dag losar matvælaframleiðsla um 30% af gróðurhúsalofttegundum og á því þarf að taka.  Um leið og verkefnið er krefjandi þá skapar þetta gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga að stíga fast fram í matvælaframleiðslu og hér í Ölfusinu höfum við allt sem til þarf. Mikið land, orku, vatn, mannauð og útflutningshöfn. Til þess að undirbyggja þetta og tryggja framgang þeirra verkefna, sem þegar eru að fara af stað þá stefnum við á stofnun Þekkingarseturs á sviði umhverfisvænna matvæla bara núna á næstu dögum vonandi,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Ölfusi.