Sveitarfélagið kaupir íþróttamannvirkin af Fasteign hf.

sundlaugin2Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss sem haldinn var 27. júní síðastliðinn var samþykkt að sveitarfélagið myndi nýta kauprétt að þjónustuhúsi íþróttamiðstöðvar og sundlaugar í samræmi við skilmála í leigusamningi við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf.

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. er eigandi íþróttamannvirkisins og hefur Sveitarfélagið Ölfus greitt til félagsins leigu allt frá opnun 2008. Framkvæmd þessi er líklega sú stærsta sem sveitarfélagið hefur ráðist í og hefur leigan verið sveitarfélaginu mjög kostnaðarsöm undanfarin ár.

Kaupin verða fjármögnuð með 940 milljóna króna láni frá Lánasjóði sveitarfélaga en með fyrirvara um staðfestingu stjórnar sjóðsins. Með kaupunum lækkar greiðslubyrði til lengri tíma, fjármagnskostnaður lækkar auk þess sem áhættan sem leigusamningum getur fylgt hverfur. Sveitarfélagið mun skoða hvort ástæða sé til að gera viðauka við fjárhagsáætlun ársins þegar staðfesting Lánasjóðs sveitarfélaga liggur fyrir.

Einnig kemur fram að með kaupunum er ekki verið að auka fjárfestingu í efnahagsreikningi þar sem fasteignirnar eru eignfærðar þar nú þegar.