Grétar Ingi genginn til liðs við Skallagrím

Mynd / Jón Björn - karfan.is
Mynd / Jón Björn – karfan.is

Grétar Ingi Erlendsson mun ekki leika með liði Þórs á komandi keppnistímabili í körfunni en á mánudag skrifaði hann undir eins árs samning við Skallagrím frá Borgarnesi.

Grétar, sem leikið hefur allan sinn feril með Þórsurum, ætlar sér þó að búa áfram í Þorlákshöfn og keyra á milli á æfingar og í leiki. Í viðtali við Sunnlenska.is er haft eftir Grétari; „Mig langaði bara til þess að prófa eitthvað nýtt. Ég hef alla tíð verið í Þór og hafði áhuga fyrir því að breyta til og reyna fyrir mér annarsstaðar.“

Í gær lék hann sinn fyrsta leik fyrir Skallagrím í Lengjubikarnum þar sem lið hans þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Stjörnunni. Grétar var þeirra sterkasti maður í leiknum og setti 13 stig og tók 10 fráköst.