Tímabilið í körfunni rúllar af stað

thorsarar01Veturinn er farinn að láta á sér kræla en á sama tíma er tímabilið í Dominos deildinni í körfubolta að hefjast.

Fyrsti leikur Þórs er útileikur gegn Snæfell á morgun, föstudaginn 11. október og hefst leikurinn klukkan 19:15. Snæfell sögðu nýverið upp samningi við bandaríska leikmann sinn en hann þótti ekki standa undir væntingum Hólmara. Þeir munu því að öllum líkindum leika kanalausir annað kvöld en án efa verða þeir þó erfiðir viðureignar og hvað þá á þeirra eigin heimavelli í Stykkishólmi.

Þór er spáð 7. sæti í vetur samkvæmt spá  fyrirliða, þjálfara og forráðamanna deildarinnar. Liðið er mjög ungt að þessu sinni og hefur misst marga lykilmenn frá síðasta tímabili en fengið þó til liðs við sig tvo unga og öfluga leikmenn sem og einn reynslubolta.

Nú mun reyna meira á heimamennina í liðinu sem munu líklega fá fleiri mínútur en áður en með nýrri reglu má einungis einn erlendur leikmaður spila á vellinum í einu. Baldur Þór, Þorsteinn Már og Emil Karel verða líklega allir áberandi á parketinu í vetur en einnig kæmi mér ekki á óvart ef hinn ungi og mjög svo efnilegi Halldór Garðar muni láta til sín taka í vetur. Halldór, sem er 16 ára, skoraði 39 stig fyrir unglingaflokk Þórs gegn Snæfell síðastliðinn mánudag en í unglingaflokki eru elstu strákar allt að 21 árs gamlir.

Það verður virkilega gaman að fylgjast með þessu unga Þórs liði í vetur. Fyrsti heimaleikur liðsins er síðan eftir viku, föstudaginn 18. október en þá mætir Stjarnan í Icelandic Glacial höllina.