Makalaus sambúð fær góða dóma

makalaus01Leikritið Makalaus sambúð sem Leikfélag Ölfuss sýnir um þessar mundir fær góða dóma. Fyrir skemmstu birti Barbara umfjöllun um leikritið inná heimasíðu sveitarfélagsins þar sem hún lýsti hrifningu sinni af verkinu og leikurum þess.

Á miðvikudaginn birtist síðan rýni inná Leiklistarvefnum þar sem Hörður Skúli Daníelsson fór fögrum orðum um verkið en hér að neðan má lesa gagnrýni Harðar.

Leikfélag Ölfuss er um þessar mundir að sýna leikritið makalaus sambúð eftir Neil Simon. Þetta er verk sem er búið að festa sig í sessi með bestu gamanverkum leikhúsmenningarinnar. Hefur Neil gert þó nokkrar útgáfur út frá sömu hugmynd, hvortveggja í leikhúsi sem í sjónvarpi. Tvær útgáfur hefur Neil skrifað fyrir leikhús. Í fyrstu leikgerð sem var fyrst sett á svið árið 1965, voru karlmenn í aðalhlutverki. Seinna meir skrifaði Neil aðra útgáfu þar sem hann hafði konur í aðalhlutverkum og er það sú útgáfa sem Leikfélag Ölfuss notar.

Þetta er skemmtilegt verk um tvær konur sem taka upp á því að búa saman þegar önnur þeirra skilur við manninn sinn. Það sem fyrst um sinn virðist vera fullkominn lausn á makaleysinu breytist í andstæðu sína þegar gallar þeirra koma upp á yfirborðið. Hnyttið og tímalaust verk þar sem samskipti í sambúð eru sett upp á skoplegan hátt.

Ljós og hljóð voru hnökralaus í sýningunni. Einföld ljósin komu upp og fóru niður án þess að nokkur tók eftir því og þjónaði það sínum tilgangi í einfeldni sinni. Hljóðmynd var að sama skapi með hógværu yfirbragði. Samansafn af lögum sem spiluð voru þegar ljós voru deyfð og sviðsmynd breytt. Svipuð tónlist var spiluð í hléi. Hún skapaði skemmtilega stemmingu sem minnti mann á skemmtanalífið fyrir nokkrum áratugum.

Verkið sjálft byrjaði vel. Leikmynd, sem aragrúi af fólki sá um, og búningar, sem leikhópurinn sjálfur fann til, voru eðlileg og full af smáatriðum. Dásamlega druslulegt heimili sem önnur af aðalpersónunum bjó í var svo eðlilegt að það var eins og húsnæði einhverra saklausra Þorlákshafnarbúa hefði verið sagað í tvennt og skellt upp á sviðið. Þetta er eitthvað sem Leikfélag Ölfuss kann að gera vel, og hefur gert áður í fyrri verkum. Annað einkenni sem sést hefur áður hjá Ölfussi, er dálæti af stórum borðum. Öðru megin á sviðinu var stórt borðstofuborð sem var eins og lítið svið upp á sviðinu. Þetta virkaði vel þegar þurfti að koma sex persónum fyrir við sama borð en minnkaði pláss til að leika þegar athyglin var ekki þar.

Eins og áður var nefnt þá byrjaði verkið vel. Áhersla leikstjóra (Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson) virtist vera að koma samtölum vel til áhorfenda. Heppnaðist það með eindæmum vel. Brandarar skiluðu sér og tímasetningar voru réttar. Hefur auga leikstjóra fyrir gamanleik skilað sér.

Leikarar stóðu sig með ágætum. Voru samræður að mestu leyti hnökralausar og tímasetningar í bröndurum æðislegar. Orkuna vantaði ekki heldur, sem og skýrleikinn í framsetningu texta. Dömurnar sem léku aðalhlutverkin, þær Magnþóra Kristjánsdóttir og Ásta Margrét Grétarsdóttir voru kostulegar. Magnþóra, sem hin kaldhæðna og subbulega kona sem þráði ekkert meira en að slaka á og skemmta sér. Ásta, sem hin taugaveiklaða og ofurskipulagða , ráfaði tuðandi um sviðið eins og raflost með svuntu. Það var oft á tíðum þrælskemmtilegur díalógur þeira á milli. Það kom fyrir að munurinn var aðeins of mikill, það er það var erfitt að trúa því hversu róleg Magnþóra var í samskiptum við svuntustuðboltan, en oftast var það bara fyndið. Aðrir leikarar stóðu sig líka með prýði og ekki var hægt að finna veikan hlekki í svona samrýmdum hópi. Oddfreyja H Oddfreysdóttir átti góða spretti sem glókollurinn í verkinu, Þrúður Sigurðardóttir var með sýnikennslu í hvernig ekki á að bregðast við þegar hætta steðjar að, Ingólfur Arnarson og Aðalsteinn Jóhannsson fóru á kostum sem exótísku útlendingarnir sem hægt var að misskilja á óteljandi vegu.

Allt verkið var þétt og skemmtilegt, fyrir utan nokkrar mínúnutur fyrir hlé, en þá virtist tenging við áhorfendur af einhverjum orsökum glatast.Til að gera langa sögu stutta, þá var þetta gott verk með góðum leik sem tekst með ágætum áætlunarverk sitt, sem er að kítla hláturtaugarnar.

Hörður Skúli Daníelsson