Þrír Þórsarar í úrvalshópi FRÍ og bestir hjá HSK

frjalsar_thor01Frjálsíþróttasamband Íslands hefur sett fram nýjan lista yfir úrvalshóp unglinga 14-22 ára. (14 ára fengu rétt á að komast inn í þennan hóp núna í haust). Hópurinn samanstendur af 47 stelpum og 44 strákum. Þau koma víða af landinu eða úr 14 félögum. Hlutverk þessa hóps er að hittast fyrir utan hina almenna frjálsíþróttakeppni, fá fræðslu, kynnast fyrrum stjörnum og kynnast hvort öðru á öðrum grundvelli. Hópurinn er valinn í ár eftir ákveðnum lágmörkum í hverri grein.

Þrír félagar í Umf. Þór eru á listanum að þessu sinni, þau Fannar Yngvi Rafnarsson, Styrmir Dan Steinunnarson og Eva Lind Elíasdóttir. Þetta er frábær árangur hjá krökkunum og virkilega gaman að fámenn frjálsíþróttadeild í litlu félagi skuli ná svo góðum árangri.

Í lokahófi meistarahóps HSK í frjálsum þann 16.okt sl. voru veittar viðurkenningar fyrir árangur og afrek á árinu. HSK metin urðu alls 40 utanhúss á árinu og átti Styrmir Dan flest þeirra eða átta, Fannar Yngvi kom þar næstur með fimm met, Eva Lind með fjögur met. Þjálfari frjálsíþróttadeildar Þórs er Rúnar Hjálmarsson og vinnur hann nú í samvinnu við stjórn að því að fjölga iðkendum og sækja u.þ.b. 20 krakkar á aldrinum 6-9 ára æfingar í viku hverri, auk þess sem sterkur kjarni er í 10-12 ára hópnum. Framtíðin er því vonandi björt hjá félaginu og fleiri eftir að bætast í úrvalshópinn í framtíðinni.