Unnur Birna og Jóhann Vignir með tónleika á Hendur í höfn

unnurogjohann01Nú er komið að síðustu tónleikunum í tónleikaröðinni sem verið hefur á Hendur í höfn í vetur en það eru skötuhjúin Unnur Birna Björnsdóttir og Jóhann Vignir Vilbergson sem ætla að skapa notalega stemningu með jólalögum í bland við sína eigin tónlist laugardagskvöldið 7. desember kl. 20.00.

Þau eiga bæði ættir sínar að rekja á suðurlandið en Jói er uppalinn á Eyrarbakka og steig sín fyrstu skref í tónlist með hljómsveitinni Nilfisk en var síðan einnig meðlimur í hljómsveitinni Boogie Trouble og Kiriyama Family. Foreldrar Unnar Birnu eru báðir frá Selfossi en pabbi hennar gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Mánum á sínum tíma. Unnur Birna er eini kvenkyns meðlimur Fjallabræðra þar sem hún spilar á fiðlu og syngur en auk þess hefur hún komið fram með fjölmörgum tónlistarmönnum þ.á.m. Frostrósum og Ian Anderson úr Jethro Tull, en hann spilar einmitt í laginu hennar, Sunshine, sem er í spilun þessa dagana. Hún lætur einnig að sér kveða á leiksviðinu, en Unnur Birna fer með hlutverk í sýningunni Jeppa á Fjalli sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.

Unnur og Jóhann hafa sem sagt spilað lengi sitt í hvoru lagi en ákváðu að stofna dúett til að hemja alla sköpunargleðina sem á sér stað innan veggja heimilisins sem kaffihúsigestir Hendur í höfn fá nú að njóta. Miðaverð á tónleikana er 1500 kr.
Að venju verður hægt að panta sér veitingar hjá Dagný en þessa dagana eru þær með sérstaklega hátíðlegu yfirbragði og kaffihúsið sjálft í sannkölluðum jólabúning. Nánari upplýsingar um matseðilinn er að finna á hendurihofn.is.

Kl. 19.00 sama dag kemur Guðni Ágústsson á Hendur í höfn og les upp úr nýútkominni bók sinni fyrir kaffihúsagesti.