Slæmt tap gegn Haukum – Sigur á sama tíma í utandeildinni

Ragnar Nathanaelsson var besti leikmaður Þórs í gær. Mynd / Davíð Þór

Haukar gerðu góða ferð til Þorlákshafnar í gærkvöld og áttu ekki í miklum erfiðleikum með lið Þórs í Icelandic Glacial höllinni. Leikurinn endaði 76-104 gestunum í vil sem réðu lögum og lofum í leiknum.

Gestirnir voru mun sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með 21 stigi þegar gengið var til búningsklefa. Leikur Þórsara skánaði örlítið í síðari hálfleik en þó höfðu gestirnir ávallt yfirhöndina og fóru að lokum með sanngjarnan 28 stiga sigur.

Hvergerðingurinn knái, Raggi Nat, virtist eini með lífsmarki í liði Þórs í gær en hann skoraði 18 stig og tók 11 fráköst. Aðrir leikmenn Þórs skoruðu minna og voru ekki nálægt sínu besta.

brooklyn_brawlers
Hluti Græna drekans leikur með Brooklyn Brawlers í utandeildinni.

Á sama tíma sigraði utandeildarlið Þorlákshafnar, Brooklyn Brawlers, andstæðinga sína í Utandeildarkeppni Breiðabliks. Brooklyn unnu Vonda liðið eftir framlengingu í hörku spennandi leik. Liðið er því ósigrandi í utandeildinni eftir þrjá leiki.