Sögulegir sigrar Þórs í frjálsum

frjalsar01Það var mikið að gera hjá frjálsíþróttafólki Þórs í síðustu viku.

Héraðsmót HSK í flokki fullorðinna innanhúss fór fram mánudagana 13. og 20. janúar í Laugardalshöllinni. Þangað sendum við nokkra keppendur, alla á aldrinum 13-19 ára. Það er skemmst frá því að segja að krakkarnir okkar unnu fullorðinsflokkinn með 139 stigum en Selfyssingar voru í 2.sæti með 106 stig. Þetta er í fyrsta sinn sem Þór fer með sigur á þessu móti og sannarlega frábær árangur.

Laugardaginn 18.janúar var svo Héraðsmót HSK 11-14 ára og 15-22 ára haldið í Laugardalshöllinni. Krakkarnir úr Þór stóðu sig stórkostlega í báðum flokkum og sigruðu reyndar eldri flokkinn með 126 stigum, Selfyssingar voru í 2. sæti með 84 stig og Garpur í 3. sæti með 66 stig. Keppendur okkar í þessum flokki voru aðeins fimm en voru á verðlaunapalli í hverri grein og stundum í öllum þremur sætunum. Þetta er sömuleiðis í fyrsta sinn sem Þór vinnur sigur á héraðsmóti innanhúss, a.m.k. eftir að farið var að keppa í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.

Í aldursflokkunum 11-14 ára áttum við níu keppendur, þar af tvo sem voru að keppa á sínu fyrsta móti. Allir þessir keppendur stóðu sig vel og jafnvel í þeim flokkum sem við vorum bara með einn eða tvo keppendur vorum við í 1.-3.sæti. Alls náðu krakkarnir 11-14 ára í 15 verðlaunapeninga á mótinu; fimm gull, sex silfur og fjögur brons. Sannarlega glæsilegur árangur. Við vorum í 4.sæti í heildarstigakeppninni enda einungis með níu keppendur. Þau lið sem voru í 1.-3.sæti voru með u.þ.b. 20 keppendur. Framtíðin er sannarlega björt hjá þessum áhugasömu og duglegu krökkum.

Sunnudaginn 19.janúar kepptu þau Styrmir Dan Steinunnarson og Eva Lind Elíasdóttir á Reykjavíkurleikunum, RIG, en þar keppa einungis þeir sem fá sérstakt boð þar um. Þau stóðu sig frábærlega, Eva Lind var í 2.sæti í kúluvarpi og Styrmir í 3.sæti í hástökki, en hann var hársbreidd frá því að slá Íslandsmet sitt síðan í desember. Þess má til gamans geta að Styrmir hvíldi fyrir þetta mót og tók því ekki þátt í aldursflokkamóti HSK – sem hefði þó vafalaust gert sigur Þórs enn glæsilegri. Sýnt var beint frá Reykjavíkurleikunum á RÚV og sannarlega skemmtilegt að geta fylgst með ,,sínu fólki“ í sjónvarpi allra landsmanna. Þess má geta að frjálsíþróttadeild Þórs lagði einnig til þrjá starfsmenn á leikana.

Það er sannarlega bjart yfir frjálsíþróttadeild Þórs og starfinu með markvissri og skipulagðri þjálfun Rúnars Hjálmarssonar. Einnig eiga foreldrar frjálsíþróttakrakkanna hrós skilið fyrir stuðning og áhuga en það vita allir sem til þekkja að öflugt íþróttastarf blómstrar ekki í litlum bæ eins og okkar nema allir leggi sitt af mörkum og sýni starfinu stuðning. Áfram Þór!

Hér að neðan má sjá myndasafn af krökkunum frá Guðna Þór.

Fh.stjórnar
Sigþrúður Harðardóttir

[nggallery id=18]