Nýr þjónustusamningur um sorphirðu í Ölfusi og áhersla lögð á flokkun

Gunnsteinn_netGunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri skrifar:

Tilboð í sorphirðu Sveitarfélagsins Ölfuss 2014-2019 voru opnuð 23. desember 2013. Þrjú tilboð bárust:

  • Kubbur ehf  –  kr. 125.312.395,-
  • Íslenska gámafélagið ehf  –  kr. 91.150.000,-
  • Gámaþjónustan hf  –  kr. 73.665.330,-

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á  –  kr. 74.836.200,-

Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Gámaþjónustuna hf. og mun nýr verksamningur taka gildi 1. mars 2014 í samræmi við ákvæði í útboðinu.

gamathjonustan01Gámaþjónustan hf. hefur annast sorphirðuþjónustu, gámaleigu og aðra  umhverfisþjónustu víða um land um 30 ára skeið og hefur alla burði til að sinna vel þessari þjónustu fyrir Sveitarfélagið Ölfus.  Fyrirtækið hyggst nota bíl með tvískiptan söfnunarkassa til að annast sorphirðu í Ölfusi.  Almennt sorp og endurvinnsluefni verður þá tekið í sömu ferð.  Þetta fækkar heimsóknum og minnkar akstur um íbúðargötur.  Íbúar skulu því ekki láta sér bregða þó að bæði ílátin verði losuð í sama bílinn því endurvinnsluefnið fer í annað hólfið en sorpið í hitt.

Þegar nýr þjónustuaðili tekur við munu öll heimili í sveitarfélaginu verða komin með tvær 240 l. tunnur.  Önnur tunnan er fyrir óflokkaðan úrgang, grá tunna með gráu loki.  Hin tunnan er grá með bláu loki (blátunna) og í hana á að setja þurrt, hreint efni til endurvinnslu.  Í þessa tunnu á eftirfarandi efni að fara;  Fernur (skolaðar, þurrkaðar og samanbrotnar), pappír (skrifstofupappír, bæklingar, umslög o.þ.h.), pappi (sléttur pappi/bylgjupappi, s.s. hreinir pítsukassar og morgunkornspakkar), dagblöð og tímarit.

Þess má geta að til stendur að hefja nú þegar undirbúning að gerð nýs gámavallar í Þorlákshöfn.  Þetta er mjög brýnt verkefni þar sem núverandi aðstaða er hvorki boðleg fyrir íbúa né sveitarfélaginu til sóma.  Lögð verður sérstök áhersla á flokkun og góða umgengni á gámavellinum.

Það er von mín að íbúar sveitarfélagsins taki þessum breytingum vel og þeir íbúar sem ekki hafa flokkað áður takist á við verkefnið með umhverfið og hag sveitarfélagsins að leiðarljósi.  Breyttar áherslur verða kynntar íbúum á næstu vikum ásamt ítarlegum upplýsingum um flokkun heimilissorps.