Gunnar Torfi sendir frá sér lag alla leið frá Bangkok

Gunnar Torfi við sundlaugarbakkann á hótelinu sem hann býr á i Bangkok.
Gunnar Torfi við sundlaugarbakkann á hótelinu sem hann býr á í Bangkok.

Þorlákshafnarbúinn Gunnar Torfi Guðmundsson hefur sent frá sér lag á myndbandavefnum Youtube. Gunnar er búsettur í Bangkok, höfuðborg Tælands, um þessar mundir þar sem hann klárar fjarnám frá Háskóla Íslands, spilar tónlist og nýtur lífssins í stórborginni.

Gunnar fór fullhlaðinn hljóðfærum til Tælands í haust, með hljómborð, gítar, saxafón, mixer, hljóðkort og fartölvu undir höndunum. Gunnar er er að klára mannfræði í fjarnámi frá Háskóla Íslands en hann nýtti tímann úti fyrir áramót til að skrifa BA ritgerð sína.

„Ég var að rannsaka lífstíls innflytjendur í Bangkok í ritgerðinni sem ég skilaði í janúar,“ segir Gunnar Torfi þegar Hafnarfréttir höfðu samband en hann er að klára síðustu áfangana þessa önnina í hitanum í Bangkok. „Það er farið að hitna all verulega núna, apríl verður of mikið,“ bætir Gunnar við en hann þekkir Bangkok út og inn þar sem  hann dvaldi þar einnig allan síðasta vetur. Í dag starfar hann einnig sem leiðsögumaður í borginni fyrir ferðaskrifstofuna Oriental, sem er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í Asíuferðum.

Í frítíma sínum semur hann og spilar tónlist. „Ég var að spila í nokkrum hljómsveitum í fyrra hérna í Bangkok, en þetta tekur svo mikinn tíma að ég er nánast hættur að spila með öðrum,“ segir Gunnar sem einbeitir sér meira að sínu eigin efni, vopnaður hljóðfærunum sem hann tók með sér út. Í þessu fyrsta lagi sem hann sendir frá sér notast hann til að mynda við hljóðbylgju frá tuk-tuk, sem er leigubíll á þremur hjólum, til að búa til bassa hljóðið í laginu. Lagið er raftónlist þar sem Gunnar notast við hljómborð og fartölvu og gerir með því ýmsa effekta .

Hér má heyra lagið frá þessum mikla heimshornaflakkara.