Ragnar í atvinnumensku til Sundsvall Dragons

raggi_nat-1Miðherjinn öflugi, Ragnar Ágúst Nathanaelsson, sem lék með Þórsurum í vetur hefur samið við Sænska úrvalsdeildarliðið Sundsvall Dragons í körfubolta. Þetta kom fram í Sportþættinum hjá Gesti frá Hæli á Suðurland FM fyrr í kvöld.

Ragnar átti frábært tímabil með Þórsurum í vetur en í Sundsvall mun Ragnar hitta fyrir Íslendingana og landsliðsmennina Hlyn Bæringsson, Jakob Örn Sigurðarson og Ægi Þór Steinarsson.

Aðdragandinn var stuttur en hann hóf samskipti við Sundsvall á fimmtudaginn í síðustu viku og kláraði síðan að ganga frá samningi við liðið nú fyrr í kvöld.

„Ég ætla að sýna mig og sanna að ég eigi heima þarna. Ég er að fara í lið þar sem ég verð að berjast fyrir mínútunum og það sagði Hlynur mér. Hugur minn er klár í að mæta bara strax á morgun og byrja að berjast. Fyrst er þó landsliðsverkefni sumarsins og ég ætla mér að sýna meira þetta sumarið en það síðasta,“ sagði Ragnar í spjalli við Karfan.is í kvöld.

Ragnar ber Þórsliðinu góða söguna í spjallinu á karfan.is. „Þór Þorlákshöfn gaf mér tækifærið til þess að verða betri og þeim verð ég eilíft þakklátur.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Ragnar í Sportþættinum hjá Gesti frá Hæli en gaman verður að fylgjast með honum í sænsku úrvalsdeildinni næsta vetur.