Er þér alveg sama?

Sveitarstjórnarkosningar fara fram 31. maí næstkomandi og verða þá kjörnir fulltrúar til setu í sveitarstjórnum um allt land. Á undanförnum áratugum hefur kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum farið minnkandi. Kosningaþátttaka í kosningum 2010 var sú lægsta í 40 ár eða 73,5% og lækkaði um 5,2 %-stig frá kosningunum 2006. Á tímabilinu 1970 til 2010 var kosningaþátttaka mest árið 1974 eða 87,8%. Kosningaþátttaka 2010 var því 14,3 %-stigum lægri en árið 1974.

Í öðrum norrænum ríkjum hefur sama þróun átt sér stað – sífellt færri nýta sér kosningarréttinn. Þar hefur kosningaþátttakan einnig verið greind niður á aldurhópa og eftir uppruna. Þannig hefur komið í ljós að yngri kjósendur og innflytjendur hafa síður nýtt sér kosningarréttinn en þeir sem eldri eru eða þeir sem eru innfæddir.

Slík greining á kosningaþátttöku hefur ekki farið fram hér á landi. Þess vegna er ekki hægt að fullyrða með neinni vissu að yngri kjósendur séu ekki að nýta sér kosningarréttinn, en samt má ætla að sama þróun sé hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur því látið gera gagnvirka herferð til þess að vekja athygli á komandi sveitarstjórnarkosningum og eiga þau að höfða sérstaklega til ungs fólks, þar sem fólk er hvatt til þess að taka þátt í kosningunum og hafa þar með áhrif á hverjir stýra sveitarfélögunum á kjörtímabilinu 2014–2018.

Gagnvirka herferðin nefnist, Er þér alveg sama? Gagnvirka herferðin setur áhorfandann að borði ásamt þremur ungmennum sem eru að skipuleggja óvænta veislu fyrir sameiginlegan vin. Hinsvegar eru þau aldrei sammála um hvernig standa eigi að málum, til dæmis með val á tónlist, útfærslu á stemmningu eða hvernig eigi nú að koma vininum á óvart! Þá er ábyrgð áhorfandans sú að velja og kjósa hvað eigi að gerast næst.

Einnig er alltaf sá möguleiki að velja “ alveg sama” og þá tekur við furðuleg atburðarrás sem leiðir ekki alltaf til góðs. Það eru fjölmargar leiðir í boði fyrir áhorfendur og margt óvænt sem getur gerst.

Öll myndböndin eru textuð á ensku, íslensku og pólsku.