
Frábærir Bítlatónleikar

Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að Gunni Óla væri svona svakalega öflugur söngvari! Ástæða vanþekkingar minnar er líklega sú að þegar ég hef séð hann á sviði hef ég verið á balli með Skítamóral og oftar en ekki búinn með nokkra kalda.
Í gærkvöldi voru semsagt frábærir tónleikar með Bítlabandinu og Gunna Óla í Ráðhúsinu. Hljómsveitin spilaði heilan helling af lögum Bítlanna og gerði það af mikilli snilld.
Hljómsveitin var mjög þétt og vel spilandi enda með valinn mann í hverju rúmi. Eins og fyrr segir var Gunni Óla frábær en ótrúlegustu nótur söng hann án þess að skella sér í falsettu. Kristrún Steingrímsdóttir og Margrét Harpa Jónsdóttir sáu um bakraddir en þær sungu einnig einar í sitthvoru laginu og voru báðar stórgóðar.
Þessir tónleikar voru aldeilis góð byrjun á góðri Hafnardagahelgi!