Öflugra Ölfus

thrudur01Ungir sem aldnir eru vaxandi þátttakendur í hvers kyns félags- og menningarstarfi. Hlúa þarf að þessum hópum og halda áfram því góða starfi sem nú þegar er unnið. Forystuhlutverk sveitarfélagsins er ótvírætt í mínum huga þegar kemur að eflingu menningarstarfs. Í stefnu sveitarfélagsins í menningarmálum 2012-2016 kemur m.a. fram að nýta skuli menningu til að efla atvinnulíf og búsetu á svæðinu. Þá kemur einnig fram að það megi gera með auknu framboði á afþreyingu í formi safna og sýninga. Þetta finnst mér frábært og tel að nú sé kominn tími til að láta verkin tala og að í Ölfusi verði byggðasafn sem geri sögu svæðisins hátt undir höfði. Með opnun byggðasafns styður sveitarfélagið við þá ferðaþjónustu sem nú þegar er til staðar og eflir aðra til að fylgja á eftir. Ég efa ekki að íbúar eru hafsjór skemmtilegra hugmynda sem virkja mætti enn frekar með eflingu menningarsjóðs og stofnun æskulýðssjóðs. Með því er verið að opna enn frekar möguleika fyrir félagasamtök og einstaklinga til að koma af stað verkefnum sem efla menningarlíf okkar og skapa ný störf. Það er jú þannig að menningartengd ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein og mikilvægt að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun.

Hér er unnið mikið og öflugt íþróttastarf, en mikilvægt er að styrkja það enn frekar og opna möguleika allra barna til þátttöku, það viljum við gera í formi frístundastyrks til barna á aldrinum 6-18 ára. Horfum við þá til samskonar fyrirkomulags og Reykjavíkurborg notar. Styrkur nýtist þá börnum í hvaða íþrótta-, lista- og tómstundastarfi sem þau kjósa, burtséð frá því hversu margar greinar eða hvar þau æfa. Þannig nýtist frístundastyrkurinn öllum börnum búsettum í sveitarfélaginu hvort sem þau æfa í Þorlákshöfn, Árborg, í Hveragerði eða Reykjavík.

Mikilvægt er að halda áfram faglegri uppbyggingu skólastarfs, bæði í grunn- og leikskóla. En á undanförnum árum hefur vel verið unnið í þeim málum en tryggja verður áframhaldandi þróun í skólastarfi í takt við öra tækniþróun og breytt námsumhverfi.
Þá er ekki síður mikilvægt að koma á virkri Forvarnaráætlun, sem unnin er í samvinnu við ungmenni, foreldra, skóla og aðra hagsmunaðila, en ég tel það mjög brýnt mál, því eigi slík áætlun að virka þarf hún að vera unnin í samvinnu við þá sem hún miðar að.

Sveitarfélagið þarf að setja sér markvissa umhverfisstefnu sem stuðlar að áframhaldandi uppgræðslu og fegrun umhverfisins, til að svo megi verða tel ég að hér þurfi að vera starfandi umhverfisstjóri á ársgrundvelli sem vinnur að framtíðarsýn okkar.
Upplýsingaaðgengi þarf að bæta, t.d. með því að birta og/eða kynna niðurstöður úr könnunum og skýrslum sem unnar eru fyrir sveitarfélagið, þannig gefst íbúum tækifæri til að fylgjast vel með og taka virkan þátt í íbúafundum. Æskilegt er að fram fari innri endurskoðun á starfsemi sveitarfélagsins til að tryggja árangur og skilvirkni í starfseminni, það leiðir af sér aukið upplýsingaflæði til íbúa og skerpir sýn starfsmanna við að ná settum markmiðum sem hljóta að miða að því að efla atvinnu, bæta innviði samfélagsins og gera gott samfélag enn betra.

Ég hvet ykkur kjósendur góðir til að setja X við D á laugardaginn og stuðla þannig að öflugra Ölfusi!

Þrúður Sigurðar
skipar 2. sæti á lista sjálfstæðismanna í Ölfusi.