Það er líka gott að búa í Þorlákshöfn

xo_kosningar2014_Guðmundur OddgeirssonEins allir vita og sjá sem vilja, þá fækkar íbúum Þorlákshafnar. Fyrir mér er Þorlákshöfn falinn fjársjóður, fjársjóður sem við verðum að láta aðra vita af.  Við í Þorlákshöfn vitum að grunnskólinn og leikskólinn eru mjög góðir og flottir í alla staði. Við vitum líka hvað íþróttaaðstaðan er góð og að þátttaka í íþróttum er almenn. Tónlistarlífið, vá!. Svo má nú aldeilis nefna gott aðgengi að heilsugæslu. Við vitum líka hvað menningarlífið er í miklum blóma og vitum oftast af menningarviðburðum sem haldnir eru á fimmtudögum þ.e. ef við náum að lesa fríblaðið Dagskrána þann daginn.

Er það nóg að bara við vitum hvað er að gerast í bænum okkar? Á góðum stundum er sagt að við þurfum að fjölga íbúum, að við höfum allt til alls, en hvað svo? Við þurfum ekkert að fela það að gott sé að búa í Þorlákshöfn. Ég hef komist að því að tengsl fólks við Þorlákshöfn ná ótrúlega víða. Við náum ekki til fólks utan héraðs bara með því láta vita af okkur í héraðsblöðunum. Einföld leið til þess að láta vita af okkur er að auglýsa viðburði okkar í fleiri miðlum en héraðsmiðlunum. T.d. má auglýsa viðburði í Fréttablaðinu sem hefur ólíkt meiri dreifingu en t.d. Dagskráin. Er eitthvað lengra fyrir höfuðborgarbúa að sækja afþreyingu til Þorlákshafnar en á Selfoss, Eyrarbakka eða Stokkseyri? Nei en fólk verður að vita í hvað er í boði.

Aðalástæða þess að við hjónin fluttum til Þorlákshafnar var lítil fasteignaauglýsing í Morgunblaðinu vorið 2000, á fasteign hér í bæ. Í auglýsingunni stóð „hversvegna ekki að líta austur fyrir fjall“ sem við hjónin gerðum, síðan hafa liðið 14 ár. Mér finnst frábært að búa hér og stunda vinnu til Reykjavíkur. Yngsti sonur okkar gekk upp grunnskólann í Þorlákshöfn og þaðan í FSU. Reykjavík missir af útsvarstekjum mínum þar sem útsvarið af minni vinnu í Reykjavík rennur til Þorlákshafnar. Þorlákshöfn og þar með Ölfus hefur verulegar tekjur af þeim stunda vinnu út frá sveitarfélaginu. Við íbúar Þorlákshafnar sem sækjum vinnu út fyrir sveitarfélagið erum „tekjulind“ eins og annað vinnandi fólk innan héraðs. Stækkum þessa auðlind, látum vita af okkur. Drögum til okkar fólk í sunnudagsbíltúr, á menningar- og íþróttaviðburði. Kennum því að hér sé gott að búa.

Byggjum upp safn og merkjum áhugaverða staði, færum upplýsingamiðstöð ferðamanna á þann stað sem lengst er opinn og fjölsóttastur en sá staður er íþróttahúsið.

Eins og áður segir dró lítil auglýsing mig til Þorlákshafnar sem svo leiddi til þess að fleiri í kringum mig fluttu austur, réttara sagt suður til Þorlákshafnar. Ef agnarlítil auglýsing gat haft þessi áhrif, hverju gæti þá markviss markaðsetning á Þorlákshöfn / Ölfusi skilað? Ég segi enn og aftur að framfarir verða ekki til af sjálfu sér. Það getur enginn kallað sig framfarasinna bara með því að bíða og sjá til.

Guðmundur Oddgeirsson
Höfundur skipar 1. sæti á Ö-lista Framboðs félagshyggjufólks í Ölfusi.