Áskorun Benedikts – Dagur 8

benni01Kostir Þorlákshafnar (8/10)

Eftir að ég setti þessa áskorun í gang fyrir rúmri viku hef ég lært margt um Þorlákshöfn sem ég vissi ekki áður þrátt fyrir að hafa búið hérna í fjögur ár. Það er virkilega gaman að lesa statusuna hjá öðrum íbúum hérna og fá ábendingar um allt það skemmtilega og góða í bæjarfélaginu. Mig langar að benda á það sem Ágústa Ragnarsdóttir benti á fyrir nokkrum dögum síðan.

MOTOCROSS: Rétt við Þorlákshöfn er frábært hjólasvæði. Þar eru bæði Endurobraut og motocrossbraut. Brautirnar eru í sandi og á frekar snjólitlu svæði þannig að brautin hefur verið vinsæl á sumrin og sú allra vinsælasta á veturna.

SURF: „Þetta er falinn fjársjóður,“ segir Bjarki Þorlákssson hjá surf.is um fjöruna í Skötubót í Þorlákshöfn. „Þessi svarti sandur er alger perla í augum útlendinga og þeir eiga ekki orð. Útlendingar sem koma hingað eru að taka myndir sem þeir fá birtar í flottum surf-tímaritum erlendis, á netinu og samfélagsmiðlum. Þannig að þetta er fljótt að spyrjast út og gæti orðið tiltölulega stórt innan fárra ára,“ segir Bjarni.

REIÐHJÓLAMENNSKA: Óvíða á landinu hentar betur að fara um á reiðhjóli enda hér flatt undir fót og þó farið sé til næstu bæja. Í Þorlákshöfn eru malbikaðir göngu- og hjólastígar um allan bæ sem og í kringum hann. Auk þess er gaman að skella sér á reiðvegina og hjóla aðeins þar en gæta þó fyllsta öryggis gagnvart hestafólkinu. Það er næs að hjóla um Ölfusið sem og út í Selvog.

Enn fleiri ástæður til að heimsækja Þorlákshöfn!

Kveðja, Benedikt Guðmundsson 
íbúi í Þorlákshöfn