Þór HSK meistari í badminton

thor_badminton01Unglingamót HSK í badminton fór fram í Þorlákshöfn í dag en lið Þórs endaði sem stigahæsta lið mótsins og er því HSK meistari unglinga árið 2014. Alls tóku 35 keppendur þátt frá fjórum félögum; Þór, Hamar, Dímon og Garpur.

Á mótinu er stigakeppni á milli félaga þar sem hver leikmaður sem endar í fyrstu fjórum sætunum safnar inn stigum fyrir sitt lið. Undanfarin ár hefur Hamar haft sigur úr bítum á þessu móti en á því varð breyting í ár. Í liði Þórs voru 8 keppendur og sigrðuð þeir allir sína flokka en á þessu móti er eingöngu keppt í einliðaleik.

Hrafnkell Máni Bjarkason fékk gullverðlaun í U13 en þess má geta að hann er einungis 9 ára. Jakob Unnar Sigurðarson fékk gull í U15 og silfur í U17 en hann er 13 ára. Berglind Dan Róbertsdóttir, 14 ára, var í fyrsta sæti í U15 og U17 og veitti einnig stelpunum í U19 harða samkeppni. Íris Róbertsdóttir fékk silfur í U15 og Álfheiður Österby lenti í þriðja sæti. Axel Örn Sæmundsson sigraði síðan í flokki U19.

Þrír keppendur voru í liði Þórs í flokki U11 og stóðu þau sig með stakri prýði en ekki er leikið til úrslita í þeim flokki, heldur fá allir þáttakendur verðlaunapening.

Þess má einnig geta að 4 keppendur tóku þátt í Kjörísmóti Hamars á laugardaginn þar sem Jakob Unnar Sigurðarson og Álfheiður Österby fengu silfur í einliðaleik.