Í gær, mánudaginn 10. nóvember, stóð ungmennaráð Ölfuss í samvinnu við Æskulýðsvettvanginn fyrir fundi með ungu fólki og þeim sem bera ábyrgð á málefnum ungs fólks í sveitarfélaginu. Fundurinn bar heitið „Komdu þínu á framfæri“ og var viðfangsefnum fundarins skipt upp í fjóra flokka, menntun, íþrótta- og æskulýðsmál, samfélagið mitt og listir og menning. Hátt í 40 ungmenni úr sveitarfélaginu tóku þátt sem og menningarfulltrúi, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar, aðstoðarskólastjóri grunnskólans, leikskólastjóri, þjálfari frá íþróttafélögunum, formaður bæjarráðs og formaður menningarnefndar.
Eitt að aðalmarkmiðum fundarins var að gefa ungu fólki tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri en að auki var markmið hans að efla frumkvæði ungs fólks. Frumkvæði í því að þora að láta skoðanir sínar í ljós á málefnum sem það varðar.
Tókst skipulag og framkvæmd fundarins virkilega vel upp og voru flestir mjög ánægðir með þá vinnu sem þar fór fram. Niðurstöður og samantektir fundarins verða síðan kynntar á ráðstefnu í Reykjavík og verða þær jafnframt sendar á fjölmiðla, á bæjarstjórn og alþingismenn.
Ungmennaráð Ölfuss vill þakka öllum því unga fólki sem sótti fundinn og þeim stjórnendum sem sáu sér fært að mæta. Að auki vill ungmennaráð þakka Æskulýðsvettvangnum fyrir að gefa okkur tækifæri á að taka þátt í þessu verkefni.
Ungmennaráð Ölfuss