Körfuboltamessa á sunnudaginn

korfubolti01Næstkomandi sunnudag hefur Baldur Kristjánsson, sóknarprestur í Þorlákshöfn, boðið til sérstakrar körfuboltamessu í Þorlákskirkju.

„Okkar ágæta lið er farið að tapa leikjum naumt á síðustu metrunum. Það er því full þörf á einhvers konar íhlutun,“ segir í tilkynningu Baldurs sem er einmitt mikill stuðningsmaður Þórs liðsins í körfubolta.

Bæjarstjóri Ölfuss, Gunnsteinn Ómarsson, lætur gamminn geysa og leikmenn liðsins verða í messunni. Fermingarbörn munu síðan lesa úr hinni helgu bók. Að venju verður kórinn á sínum stað sem og presturinn sjálfur.

Messan stendur frá klukkan 14-15 og eru allir hvattir til að mæta.