Emil bjartsýnn fyrir leikinn gegn Haukum

emil01
Emil Karel átti stórleik gegn Snæfell í síðustu umferð.

Í kvöld fer fram leikur Hauka og Þórs í Dominos deildinni í körfubolta og fer hann fram á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Haukar hafa verið að spila feiknar vel á þessu tímabili og einungis tapað einum leik af fimm það sem af er tímabils. Þórsarar hafa tapað síðustu tveimur leikjunum í deildinni og nú síðast grátlega gegn Snæfell síðastliðinn föstudag, þar sem Þór leiddi nánast allan leikinn.

Maður leiksins gegn Snæfell var án efa Emil Karel Einarsson en hann átti frábæran leik og var stigahæsti leikmaður Þórs með 26 stig. Hafnarfréttir slógu á þráðinn til Emils þar sem hann var í óða önn að gera sig kláran fyrir leik kvöldsins.

„Stemningin er mjög góð í hópnum fyrir leikinn í kvöld. Þetta var svekkjandi tap gegn Snæfell en við þurfum að horfa á björtu hliðarnar frá síðasta leik og læra af honum. Við spiluðum mjög vel í 37 mínútur og við fáum Baldur og Grétar aftur fyrir þennan leik sem er gífurlega mikilvægt fyrir okkur,“ segir Emil Karel bjartsýnn fyrir leik kvöldsins.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 en fyrir þá sem ekki sjá sér fært um að mæta á Ásvelli eiga að geta fylgst með leiknum í beinni á heimasíðu Hauka.