Jónas Sig með tvenna tónleika um helgina

jonasogludro-1Hinn rauðbirkni Þorlákshafnarbúi, Jónas Sigurðsson, hefur ásamt Ritvélum framtíðarinnar verið á ferð og flugi í nóvember. Síðastliðna helgi gerðu þau allt vitlaust á Græna Hattinum á Akureyri sem og Siglufirði en fyrr í mánuðinum voru þau í Reykjavík og á Selfossi.

Næstu helgi verða tvennir tónleikar og jafnframt þeir síðustu í bili. Þeir fyrri í Bæjarbíói í Hafnarfirði á föstudagskvöldinu, en Bæjarbíó hefur iðað af lífi síðustu mánuði og er mikil tilhlökkun í hópnum að spila þar. Á laugardagskvöldinu verður svo fullveldissinnuðum Íslendingum blásinn byr undir báða vængi þegar hljómsveitin kemur fram á Fullveldishátíð á Húrra.

Jónas er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum þegar til þjóðfélagsumræðunnar kemur og lét til sín taka á fyrstu mótmælunum við Austurvöll þegar hann flutti nýjasta lag sitt, Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Lagið er enn óútgefið en mun án efa verða tekið um næstu helgi.

Báðir tónleikarnir hefjast kl. 22.00 og er miðaverð 2.000 krónur.