Enginn með Steindóri – sýningum lýkur

enginn_med_steindori01Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að Leikfélag Ölfuss hefur verið að sýna leikrit þennan mánuðinn. Leikritið nefnist Enginn með Steindóri og er eftir Nínu Björk Jónsdóttur. Félagið fékk til liðs við sig leikstjórann Don Ellione sem hefur starfað með Leikfélagi Selfoss um árabil.

Æfingar hófust í byrjun september og frumsýnt var 25. október. Leikarar í sýningunni eru 9. Það eru þau Aðalsteinn Jóhannsson, Axel Bergmann Sigurðsson, Árný Leifsdóttir, Benjamín Hallbjörnsson, Erla Dan Jónsdóttir, Hilmar Kristberg Jónsson, Jónheiður Ísleifsdóttir, Oddfreyja H. Oddfreysdóttir og Ólöf Þóra Þorkelsdóttir. Að auki hafa fjölmargir sinnt öðrum störfum við sýninguna, s.s. ljósum, hljóðum, sminki, leikmyndasmíði, hvísli á æfingum, miðasölu, leikskrárgerð og fleira.

Sýningar hafa gengið vonum framar og yfir 400 manns komið víðsvegar að til að sjá sýninguna. Sýnt hefur verið í Versölum og kann leikfélagið Sveitarfélaginu Ölfusi bestu þakkir fyrir að gera okkur kleift að halda úti starfsemi og setja upp sýningar á hverju ári. Nýir áhorfendabekkir sem Sveitarfélagið var að kaupa fyrir húsið er einnig frábær viðbót við þá aðstöðu sem fyrir er og eykur notagildi hússins verulega fyrir þá sem það nýta. Einnig viljum við þakka öllum þeim fyrirtækjum sem styrktu okkur við uppsetninguna sem og öðrum sem aðstoðuðu á einhvern hátt.

Lokasýning fór fram 29. nóvember síðastliðinn. Við kveðjum persónurnar og leiksviðið með söknuði en einnig gleði yfir vel heppnuðu sýningartímabili. Síðan verða hendur látnar standa fram úr ermum við að taka niður leikmynd og ganga frá henni í litla, sæta húsinu okkar við Suðurvararbryggju. Eftir áramót eru svo ný og spennandi verkefni í farvatninu sem við kynnum síðar. Takk allir sem komuð að sjá okkur!

Magnþóra Kristjánsdóttir, formaður Leikfélags Ölfuss