Þór úr leik í bikarnum

vee_sanford-1Þór tapaði fyrir Keflavík í gærkvöldi í 16 liða úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta. Leikurinn endaði 89-78 Keflavík í vil og eru Þórsarar því dottnir úr leik í bikarnum.

Mikið jafnræði var með liðunum í leiknum að fjórða leikhlutnanum undanskildum. Í hálfleik var staðan 44-42 og eftir þriðja leikhluta var hnífjafnt 63-63. Þá var sem slökkt hefði verið á liði Þórs en Keflavík gerði 20-4 áhlaup í upphafi síðasta leikhlutans sem reyndist allt of dýrkeypt. Leikurinn endaði sem fyrr segir með sigri heimamanna í Keflavík 89-78.

Vincent Sanford var stigahæstur hjá liði Þórs og skoraði hann 20 stig, Nemanja Sovic setti 16, Þorsteinn Már Ragnarsson 14 og var frákastahæstur með 8 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 12, Grétar Ingi Erlendsson 8, Emil Karel Einarsson 6 og Oddur Ólafsson 2.