Ungmennaráð Ölfuss 2015Hluti af fulltrúum í Ungmennaráði Ölfuss eru nú staddir á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem Ungmennafélag Íslands stendur fyrir. Ráðstefnan er haldin í Stykkishólmi og yfirskrift hennar er „Margur verður af aurum api – réttindi og skyldur ungs fólks á vinnumarkaði“.

Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir, formaður ungmennaráðs, vonast til að ráðstefnan verði skemmtileg og gagnleg fyrir ungmennaráðsfulltrúana og að allir fulltrúar ungmennaráðs muni fara heim með dýrmæta reynslu.

Fulltrúar ungmennaráðs á ráðstefnunni eru Aðalbjörg Ýr, Sunnar Ýr, Berglind Dan og Sesselía Dan. Voru þær mjög hressar þegar fréttarmaður Hafnarfréttar hafði samband við þær. Þær sögðu að það væri ánægjulegt að vera ungmenni í Ölfusi í dag. Sérstaklega þar sem að um þessar mundir er í gangi rafræn íbúakosningin í sveitarfélaginu og kosningaaldurinn er 16 ára í þeim.

Að lokum vildu þær minna alla íbúa sveitarfélagsins á að kjósa en nú er bara einn dagur eftir af kosningunum.