Benedikt Guðmundsson, þjálfari meistaraflokks Þórs í körfuknattleik, mun ekki þjálfa liðið á næstu leiktíð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Benedikt hefur starfað í 5 ár sem þjálfari meistaraflokks og yngri flokka hjá Þór. Hann tók við meistarflokki Þórs þegar liðið lék í 1. deildinni og kom því upp í úrvalsdeild á sínu fyrsta tímabili með liðið. Strax á fyrsta tímabili í úrvalsdeild fór hann síðan með liðið í úrslit á móti Grindavík. Þór hefur síðan fest sig í sessi sem eitt af betri liðum úrvalsdeildarinnar.
Körfuknattleiksdeild Þórs óskar Benedikt velfarnaðar í framtíðinni og þakkar frábær störf í þágu körfuknattleiksdeildarinnar og mjög gott samstarf.