Hetjuleg endurkoma Ægismanna dugði ekki til sigurs

fotbolti01Ægismenn spiluðu við ÍR í 18.umferð 2. deildar karla í fótbolta núna í kvöld í Breiðholtinu. Fyrir leikinn voru ÍR-ingar á toppi deildarinnar með 43 stig en Ægir í 11. sæti með 14 stig.

Leikurinn fór skemmtilega af stað og fengu Ægismenn fyrsta færi leiksins á 5. mínútu en Daniel Marco framherji Ægis komst í fínt færi en markvörður heimamanna varði það skot vel.

Lítið var um færi hjá báðum liðum í fyrri hálfleik og var um frekar bragðdaufan leik að ræða en þrátt fyrir það virtust ÍR-ingar alltaf líklegri til að skora og gerðu þeir það svo rétt fyrir hálfleik á 43. mínútu þegar þeir bruna upp hægri kantinn, gefa boltann fyrir beint á Aleksandar Kostic sem lagði boltann í markið. 1-0 staðan heimamönnum í vil þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik.

Allt annað var uppi á teningnum í seinni hálfleik en þá opnuðust allar flóðgáttir. Á 50. mínútu sækja heimamenn og ná skoti á markið sem Marteinn Örn markvörður Ægismanna ver ágætlega, en þegar Marteinn ætlar að standa upp, grípa boltann og koma honum í leik þá missir hann boltann, beint í fæturnar á Jóni Ström sem skorar í autt markið. Frekar klaufalegt hjá Marteini sem gerði sig sekan um stór mistök þarna. 2-0 fyrir ÍR.

Eftir annað mark heimamanna hófst endurkoma Ægis. Á 68. mínútu skorar Daniel Marco sitt 5. mark á tímabilinu þegar Arilíus Marteinsson tekur aukaspyrnu utan af velli og setur hana inn í teig ÍR-inga en þar stekkur Daniel hæst manna og stangar boltann örugglega í netið. 2-1 staðan orðin og leikurinn að opnast.

Á 78. mínútu sækja Ægismenn og reyna að mjaka boltanum í gegnum vörn ÍR-inga, boltinn rúllar á milli miðvarða ÍR og kallar Magnús Þór markvörður ÍR á boltann. Annar miðvarðanna ákveður að treysta ekki markmanninum og sparkar boltanum beint til hliðar og það vildi svo heppilega til að þar stóð Jonathan Hood og setti boltann í autt markið þar sem markvörður ÍR var hlaupinn út í boltann. Mistök hjá heimamönnum sem skilaði jöfnunarmarki Ægis. Staðan 2-2

Aðeins tveimur mínútum seinna þá geysast Ægismenn í skyndisókn, boltinn langur fram á Daniel sem vinnur sitt skallaeinvígi og Jonathan Hood kominn aleinn í gegn á móti markmanni ÍR. Hood gerði sér lítið fyrir og hamraði boltann framhjá Magnúsi og staðan orðin allt í einu 3-2 fyrir Ægi og 10 mínútur eftir af leiknum!

Eftir 3. mark Ægis fóru ÍR-ingar að sækja í sig veðrið og féllu Ægismenn alltof langt niður á völlinn og buðu hættunni sjálfir heim. Á 87. mínútu skora ÍR-ingar jöfnunarmarkið en þar kemur bolti í gegn og gleyma varnarmennirnir sér í dekkingunni og Arnór Björnsson skorar. 3-3 og lítið eftir.

Á 91. mínútu flautar dómari leiksins aukaspyrnu á stórhættulegum stað fyrir ÍR-inga en sú aukaspyrna átti aldrei að eiga sér stað þar sem brotið var lítið sem ekkert. Jón Gísli Ström spyrnir boltanum í gegnum varnarvegg Ægis og inn fer boltinn. Staðan orðin 4-3 og leikurinn búinn. Án vafa eitt súrasta sigurmark sem undirritaður hefur séð.

Svo þegar flautað var til leiksloka brutust út mikil fagnaðarlæti hjá ÍR-ingum sem eru svo gott sem búnir að tryggja sig upp í 1. deild að ári, en eftir sitja Ægismenn með súrt ennið í 11. sæti deildarinnar.

Næsti leikur er gegn KV laugardaginn 3. september heima í Þorlákshöfn. KV eru í 10. sæti deildarinnar með 17 stig og er því ljóst að sá leikur verður nánast upp á líf og dauða. Mætum og styðjum okkar menn!

Áfram Ægir!