Sameiningu ýtt út af borðinu

SuðurlandBæjarstjórn sveitarfélagsins fjallaði á seinasta fundi sínum um rafrænu íbúakosningarnar sem fóru fram 17.-27. mars sl. Eins og Hafnarfréttir hafa áður fjallað um þá var mjög mjótt á munum í þeirri spurningu sem snéri að vilja íbúa til að hefja viðræður við önnur sveitarfélög um sameiningu. En 304  einstaklingar (49,3% allra atkvæða) voru hlynntir viðræðum, 308 andvígir (49,9% allra atkvæða) og 5 skiluðu auðu (0,8% allra atkvæða).

Í bókun bæjarstjórnar kemur fram að í ljósi niðurstöðu kosninganna sjái hún ekki forsendur til að fara í viðræður um sameiningu við önnur sveitarfélög. Bæjarstjóra var falið að kynna bæjarstjórn Hveragerðisbæjar þessa niðurstöðu.

Það er því ljóst að Sveitarfélagið Ölfus mun ekki ræða sameiningarmál á næstunni en í dag er Ölfus í miklu samstarfi við nágrannasveitarfélögin um ýmsa stóra málaflokka eins og málefni fatlaðra, félagsþjónustu, skólaþjónustu, almenningssamgöngur, brunavarnir og fleira.