Útflutningsverðlaun forseta Íslands hönnuð í Þorlákshöfn

Dagný Magnúsdóttir 1Föstudaginn 15.maí sl. veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, fyrirtækinu Icelandair Group Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2015 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það var Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins. 

Verðlaunin fær Icelandair Group fyrir þann einstaka árangur sem fyrirtækið hefur náð í að laða til landsins erlenda gesti og greiða för landsmanna til annarra landa.

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af  Dagnýju Magnúsdóttur glerlistarkonu í Þorlákshöfn og heitir verkið Vegferð.  Um verk sitt segir listamaðurinn:

Í verkinu er horft af himni til hafs. Ólgandi krafta náttúrunnar ber fyrir augu þegar ólík öfl kalla fram fegurð og mikilfengleika. Undir yfirborðinu, sem virðist meinlaust og friðsælt, ólgar krafturinn sem slípar grjótið og þar velkist sandurinn sem er uppistaða glersins. Glerið tekur á sig mismunandi myndir eftir því hvernig horft er í gegnum það og minnir okkur á víðsýni og óþrjótandi möguleika á vegferð þekkingar og framkvæmda.“

Það er mikill heiður fyrir hvern listamann að fá verkefni eins og þetta og ögrandi fyrir ímyndunaraflið og sköpunargáfuna. Dagný hóf hugmyndavinnuna í upphafi árs og má segja að ferlið frá hönnun til endanlegrar útgáfu hafi tekið 3-4 mánuði. Samhliða þessari vinnu hefur Dagný sinnt annarri listsköpun á glervinnustofunni Hendur í höfn í Þorlákshöfn og rekstri kaffihúss með sama nafni en notalegt andrúmsloft og ljúffengar veitingar þess hafa vakið athygli meðal íslenskra og erlendra gesta.