Góð mæting á 17. júní hátíðardagskrá

Fjallkonan Rebekka ÓmarsdóttirHátíðarhöldin í dag hófust með hefðbundnum hætti með skrúðgöngu og dagskrá í íþróttamiðstöðinni. Góð mæting var á hátíðina en hún var í höndum fimleikadeildar Þórs þetta árið.

Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórnar, hélt stutt ávarp þar sem hann fór yfir það sem búið er að gera upp á síðkastið í okkar samfélagi. Hátíðarræðan var í höndum Aðalsteins Jóhannssonar en hann rifjaði upp sín fyrstu ár hér í höfninni og benti á hve öflugt tónlistar- og félagslíf er í sveitarfélaginu.

Fjallkonan að þessu sinni var Rebekka Ómarsdóttir og var hún stórglæsileg. Flutti hún ljóð eftir ljóðskáldið Huldu.

Að þessu loknu mætti Gói á svæðið og skemmti krökkunum, einnig söng Berglind María nokkur lög. Rúsínan í pylsuendanum var svo dansatriði frá danshópnum Ground zero.