Það verður sannkallaður stórviðburður í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn á föstudaginn, 7. ágúst. Landslið karla í körfubolta mun mæta Hollandi í æfingaleik fyrir lokamót EM, EuroBasket 2015, sem fram fer í Þýskalandi í haust.
Núna gefst Þorlákshafnarbúum og öðrum nærsveitungum tækifæri á að bera bestu körfuboltamenn Íslands augum og það í Þorlákshöfn. Landslið Íslands hefur líklega aldrei verið betra en þetta er í fyrsta sinn sem landslið Íslands í körfubolta kemst á lokamót EM.
Þórsarar eiga sinn fulltrúa í landsliðshóp Íslands. Raggi Nat, sem skipti aftur til Þórsara í vor eftir eitt tímabil í Svíþjóð, er í æfingahóp landsliðsins og verður gaman að sjá hvort hann verði valinn í lokahópinn sem fer til Þýskalands í haust.
Leikurinn hefst klukkan 19:15 og hægt er að panta miða á leikinn á Tix.is.