Alltaf stuð í Tónsmiðju Suðurlands

stebbi_thorleifs_webNú er 11. starfsár Tónsmiðju Suðurlands að hefjast. Sem fyrr eru öll pláss að fyllast sem er afskaplega ánægjulegt og góð meðmæli með okkar starfi.

Tónsmiðja Suðurlands hefur vaxið og dafnað hægt en örugglega í gegnum þessi tíu ár. Nemendur skólans hafa staðið sig vel innan skóla sem utan og hefur verið gaman að fylgjast með þeim í hinum ýmsu tónlistarkeppnum eins og Söngkeppni framhaldsskólanna, Samfés og Músíktilraunum. Þessum góða árangri getum við þakkað einvala liði kennara með góða þekkingu á faginu.

Kristrún Steingrímsdóttir
Kristrún Steingrímsdóttir

Gaman er að geta þess að nú í haust er einn nemandi Tónsmiðju Suðurlands á leið í Liverpool Institute for Performing Arts í Liverpool (Lipa.ac.uk). Stúlkan sú arna heitir Kristrún Steingrímsdóttir og hún kláraði miðstigspróf í rytmískum söng hjá Tónsmiðju Suðurlands. Því næst lá leið hennar til Kaupmannahafnar þar sem hún kláraði Complete Vocal Academy haustið 2013. Óskum við henni auðvitað góðs gengis í Liverpool.

Kennarar Tónsmiðju Suðurlands eru sex talsins og eru kennslustaðir á Selfossi, Hveragerði, Flúðum, Laugalandi og á Hvolsvelli.

Sífellt fleiri sveitarfélög gera samning við Tónsmiðjuna og er það sérstök ánægja að sjá og finna að sveitastjórnir vilja vel á þessum vettvangi. Núna í haust bætist Sveitarfélagið Ölfus í hóp sveitarfélaganna en fyrir eru Árborg, Ásahreppur, Flóahreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Rangárþing eystra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Einnig sinnum við nemendum annarra sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð Sveitarfélaga.

Tónsmiðja Suðurlands er einkarekinn tónlistarskóli með áherslu á rytmíska tónlist, viðurkenndur af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Heimasíða Tónsmiðju Suðurlands er www.tonsmidjan.net.

Í lokin er gaman að rifja upp einn Þorlákshafnarbúa sem var á söngnámskeiðum hjá mér í Tónkjallaranum í denn. Elísabet Ásta Bjarkardóttir sigraði söngkeppni FSu og endaði í 3. sæti í aðalkeppninni árið 2005. Sjá myndband hér að neðan.

Stefán Þorleifsson,
Skólastjóri Tónsmiðju Suðurlands