Ný æskulýðsmiðstöð opnuð

Að þessu sinni í Gamalt og gott er það úrklippa úr Morgunblaðinu frá árinu 1988 þar sem sagt er frá nýrri æskulýðsmiðstöð eða félagsmiðstöð eins og hún kallast í dag.

Opnun félagsmiðstöðvarFélagsmiðstöð var formlega tekin i notkun fyrir nokkru hér í Þorlákshöfn. Félagsmiðstöðin, sem opin er þrjú kvöld í viku, er fyrir krakka úr 7. bekk og upp úr. Börn í 4., 5. og 6. bekk fá að vera tvo daga í viku fyrir kvöldmat. Það hefur lengi verið haft á orði hér að enginn staður annar en sjoppurnar væru fyrir börnin til að eyða frítíma sinum.

Fyrir um ári fóru tveir áhugasamir menn að kanna möguleika á að fá stað sem hægt væri að nýta fyrir félagsmiðstöð og einnig að kynna sér hvernig slíkir staðir væru reknir. Enginn fannst staðurinn, en áhugi unglinganna fyrir þessu leyndi sér ekki. Það var siðan ekki fyrr en í haust að Hjörtur Sandholt og Torfi Áskelsson tóku þráðinn upp að nýju og fengu leyfi hreppsnefndar til að breyta smíðastofu (enda félagsheimilisins, sem hefur verið ónotuð um tíma vegna kennaraskorts.

Fljótlega varð Torfi að hverfa til annarra starfa en Hjörtur hélt ótrauður áfram og með aðstoð fjölda sjálfboðaliða og peningastyrkja frá hreppsnefnd og klúbbum eins og Kiwanis og Lions og fjölda fyrirtækja á staðnum tókst honum og áhugasömum unglingunum að gera smíðastofuna að aðlaðandi félagsmiðstöð þó eitthvað skorti á að öll tæki séu fyrir hendi.

Einar Sigurðsson, oddviti hreppsnefndar, afhenti unglingunum veglegan lykil til merkis um það að nú væri félagsmiðstöðin þeirra. Búið er að skipta starfseminni í hópa. Sem dæmi um hópa má nefna skák, billjarð, dans, pílukast, ljósmyndun, myndbönd og fleira.

Hjörtur sagði í ræðu sinni við opnunina, um leið og hann þakkaði öllum samstarfið og unglingunum ánægjuleg kynni, að nú réðist framhaldið af því hvað áhugi og dugnaður unglinganna entist, því þeir ættu sjálfir að sjá um skipulag og framkvæmd hér eftir.

Jón H. Sigurmundsson skrifaði greinina á sínum tíma en hana má nálgast á vefsíðunni Tímarit.is