Í síðustu viku kvað Hæstiréttur upp dómur í sorpmálinu í Ölfusi og þarf sveitarfélagið og Gámaþjónustan að veita Íslenska gámafélaginu öll gögn vegna sorphirðu í sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Áður hafði Héraðsdómur Suðurlands hafnað kröfu Íslenska gámafélagsins.
Jón Franzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, var að vonum kátur með niðurstöðuna og segir hana áfangasigur. „Það er ánægjulegt að við fáum að skoða þessi gögn og fá okkar rétt. Nú getum við kannað hvort ekki hafi allt verið gert á réttan hátt varðandi útboð sveitarfélagsins.“
Lögmaður Gámaþjónustunnar, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, gat ekki tekið í sama streng en hún telur að þessi niðurstaða geti skaðað opinbera aðila sem vilja sækjast eftir bestu verðunum. „Þetta er eins og bakarar gefi samkeppnisaðila uppskriftina sína,“ segir hún í viðtali við Fréttablaðið.
Í úrskurðarorðum Hæstaréttar kemur einnig fram að Sveitarfélagið Ölfus þarf að greiða gerðarbeiðanda, Íslenska Gámafélaginu, 1 m.kr. í málskostnað.