Vonast til að finna flak herskips sem strandaði árið 1718

gotheborg_eftirliking01
Þetta skip er eftirlíking af Götheborg sem strandaði í Ölfusi.

Guðbrandur Jónsson frá Fornbátafélagi Íslands hefur leitað til Sveitarfélagsins Ölfuss um aðstoð við leit á flaki danska herskipsins Götheborg sem strandaði í Hraunsfjöru í Ölfusárós árið 1718. Um borð voru hundrað og áttatíu manns og þar af fórust tíu.

Herskipið var á siglingu út af Þorlákshöfn þegar skelfilegt veður brast á. Guðbrandur lýsir atburðarrásinni í samtali við Sunnlenska fréttablaðið.

Sagan er á þá leið að þegar Gjötheborg kemur út af Þorlákshöfn brestur á stórviðri úr suðaustri og er skipið statt út af Eyrarbakka/Stokkseyri þegar framráin brotnar af í stórsjó og skipið verður stjórnlaust, mikill leki kom að því og höfðu menn ekki undan að dæla út sjó. Þegar skipið er um það bil að koma upp í fjöru eru akkerin tvö sett út og við það fer stefnið upp öldu og vind. Þannig kom skipið í strand á því sem þeir kalla sker og er bátur settur út og menn þar á til að freista þess að koma spotta í land því nokkuð langt var frá skerinu í land, báturinn fórst þarna.

gudbrandur_jonsson
Guðbrandur Jónsson

Guðbrandur vonast til þess að sveitarfélagið geti hjálpað sér með því að lána í verkið hafnsögubátinn í öryggisskyni og einnig til þess að draga á eftir sér sónar tæki þar sem vatnið er djúpt. Hann vill að fornleifarnar endi á safni í Þorlákshöfn ef þær finnast og telur hann að þarna geti leynst gríðarleg verðmæti.

Eftir að skipið strandaði var ákveðið að kasta öllum þungum hlutum fyrir borð til að freista þess að létta skipið og fleyta því þannig af skerinu, sagði Guðbrandur við Sunnlenska fréttablaðið og bætti við;

Þannig fóru út í sjóinn 30 fallbyssur við skerið. Eina skerið þarna um slóðir sem passar inn í þessa atburðarás er skerið, Hásteinasker, þetta er hlunnindaskerið þeirra Hraunsbænda í mörg hundruð ár sem týna þarna bestu söl á landinu. Skipið losnar af skerinu og flýtur vestur með fjörunni þangað til stefni þess stingst inn í sand við Hraunskeið. Önnur síða skipsins brotnar af fljótlega eftir að menn eru komnir í land en áhöfnin var að mestu frá Noregi. Tíu fórust en fleiri tugir fallegra barna fæddust ári eftir strandið víða á bæjum um Suðurland þar sem norska áhöfnin fékk veturvist.

Guðbrandur er með málmleitartæki sem hann hyggst nota en Hannes og Þórhildur á Hrauni hafa boðið honum að reyna búnaðinn við skerið.

Ábúendur að Hrauni og Sveitarfélagið Ölfus eiga allan rekarétt þarna við ströndina og hafa lýst yfir samstarfi við að finna akkeri eða fallbyssur þarna við skerið og þá ballestina í fjörunni, hugsanlega á strönd sveitarfélagsins.